fös 28. október 2016 12:00
Magnús Már Einarsson
Arnar Viðars verður aðstoðarmaður Rúnars (Staðfest)
Rúnar mögulega í stúkunni annað kvöld
Arnar á æfingu hjá Lokeren í vikunni.
Arnar á æfingu hjá Lokeren í vikunni.
Mynd: Kristján Bernburg
Rúnar var ráðinn þjálfari Lokeren í morgun.
Rúnar var ráðinn þjálfari Lokeren í morgun.
Mynd: Lokeren
Arnar Þór Viðarsson verður aðstoðarþjálfari Lokeren með Rúnari Kristinssyni. Þetta staðfesti Rúnar í samtali við Fótbolta.net í dag.

Rúnar var í morgun ráðinn þjálfari Lokeren en hann tekur við liðinu af Georges Leekens sem látinn var taka pokann sinn í fyrradag.

Arnar hefur undanfarið verið þjálfari varaliðs Lokeren en hann er eins og Rúnar fyrrum leikmaður félagsins.

„Ég hef óskað eftir því að Arnar verði minn nánasti samstarfsmaður og aðstoðarmaður," sagði Rúnar við Fótbolta.net í dag.

„Fyrir eru þrír aðstoðarmenn og Arnar mun bætast í þann hóp. Ég á eftir að deila verkefnum á menn en ég vil hafa Arnar næst mér og láta hann stjórna æfingum með mér og taka ákvarðanir ásamt mér."

„Arnar þekkir belgískan fótbolta mjög vel. Hann hefur gert frábæra hluti með varalið félagsins. Hann er að gera góða hluti með unga leikmenn sem hafa ekki fengið tækifæri í aðalliðinu."


Arnar hefur stýrt æfingum hjá Lokeren í vikunni eftir að Leekens var rekinn. Arnar hefur verið að undirbúa lið Lokeren fyrir leikinn gegn AS Eupen á morgun en óvíst er hvort Rúnar verði á bekknum þar.

„Ég er ekki búinn að taka ákvörðun um það hvort ég verði með honum á bekknum eða uppi í stúku," sagði Rúnar.

„Það er föstudagur í dag og leikur á morgun. Arnar hefur stjórnað síðustu tveimur æfingum áður en ég kem hingað og ég vil ekki breyta of miklu fyrir leikinn á morgun. Það er búið að undirbúa liðið til að spila ákveðinn hátt og ég mun leggja mína blessun á það. Kannski breyti ég einhverjum smátriðum og læt Arnar vita hvað ég vil sjá og svo vinnum við þetta saman á morgun."

Lengra viðtal við Rúnar birtist á Fótbolta.net innan tíðar.
Athugasemdir
banner
banner