fös 28. nóvember 2014 11:39
Magnús Már Einarsson
Viðtal
Ingvar Jóns: Er að fara í samkeppni
Ingvar Jónsson var leikmaður ársins í Pepsi-deildinni.
Ingvar Jónsson var leikmaður ársins í Pepsi-deildinni.
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
,,Þetta hefur verið ótrúlegt ár hjá mér og þetta er fullkominn tímapunktur fyrir mig til að taka næsta skref. Tímabilið gat ekki gengið betur og ég er ótrúlega ánægður með að vera búinn að skrifa undir hjá svona flottu félagi," sagði Ingvar Jónsson við Fótbolta.net í dag.

Ingvar var valinn leikmaður ársins í Pepsi-deildinni hjá Fótbolta.net en hann hjálpaði Stjörnunni að landa Íslandsmeistaratitlinum í fyrsta skipti. Ingvar samdi í morgun við norska félagið Start.

,,Mér líst ótrúlega vel á þetta. Ég hef bara heyrt góða hluti um þetta og ég held að þetta sé draumaklúbburinn."

,,Ég heyrði fyrst af áhuga frá þeim fyrir 7-10 dögum. Þeir voru í markmannsleit og höfðu séð leiki hjá mér. Þeir voru mjög áhugasamir og þetta gekk mjög hratt fyrir sig."


Á leið í samkeppni
Matthías Vilhjálmsson og Guðmundur Kristjánsson hafa báðir leikið með Start undanfarin ár.

,,Ég hef verið í sambandi við Matta síðustu daga og ég hef líka verið í sambandi við Harald Guðmundsson mág minn sem spilaði þarna fyrir nokkrum árum síðan. Þeir hafa báðir talað mjög vel um klúbbinn og bæinn," sagði Ingvar sem mun berjast við Terje Reinertsen um sæti í byrjunarliðinu.

,,Ég er að fara að berjast um stöðuna. Markvörðurinn sem hefur verið þarna síðustu tvö ár á eitt ár eftir af samningi sínum svo ég er að fara út í jafna samkeppni. Maður veit það þegar maður er að fara í atvinnudeild að maður er ekki að fara að eiga sætið. Maður verður betri af samkeppni og ég hef fulla trú á að ég verði aðalmarkvörður þarna."

Fleiri félög höfðu áhuga
Ingvar æfði með sænska félaginu Åtvidaberg á dögunum og fékk tilboð þaðan. Hann ákvað hins vegar að semja við Start.

,,Ég fékk samningstilboð sem ég hafnaði. Þeir voru að gera annað tilboð klárt þegar þjálfarinn sem vildi fá mig hætti. Þeir eru ekki ennþá búnir að ráða þjálfara svo það gekk ekki eftir. Annað félag í norsku úrvaldeildinni hafði áhuga en mér fannst þetta miklu meira spennandi."

Ætlar að spila aftur með Stjörnunni
Ingvar hefur spilað með Stjörnunni frá því árið 2011 en hann kom til félagsins frá Njarðvík.

,,Það er gríðarlega erfitt að fara frá Stjörnunni en þetta er skref sem ég verð að taka til að verða betri fótboltamaður. Ég kveð Stjörnuna í góðu og hlakka til að spila aftur með
þeim síðar meir,"


Ingvar reiknar með því að Sveinn Sigurður Jóhannesson og Arnar Darri Pétursson muni berjast um markvarðar stöðuna hjá Stjörnunni næsta sumar. ,,Við erum með tvo frábæra uppalda markmenn sem verða bara betri í samkeppni við hvorn annan. Ég held að þeir spili næsta sumar," sagði Ingvar að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner