fös 28. nóvember 2014 10:00
Magnús Már Einarsson
Ómar Jó stefnir á að spila í Pepsi-deildinni - Aftur í Keflavík?
Ómar Jóhannsson.
Ómar Jóhannsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hrafnhildur Heiða Gunnlaugsdóttir
Ómar Jóhannsson stefnir á að taka fram hanskana og spila í Pepsi-deildinni næsta sumar eftir langa fjarveru vegna meiðsla á öxl.

Hinn 33 ára gamli Ómar missti af hálfu tímabili með Keflavík í fyrra vegna meiðsla og í sumar var hann ekkert með. Hann einbeiti sér þess í stað að því að vera aðstoðarþjálfari hjá Njarðvík í 2. deildinni.

Ómar fór í aðgerð á öxlinni í september síðastliðnum og endurhæfing eftir hana gengur vel.

,,Ef allt gengur að óskum þá fer ég vonandi í fótbolta fljótlega eftir áramót. Stefnan er að spila í Pepsi-deildinni á næsta ári en ég hef náttúrulega verið frá í heilt ár þannig að ég geri mér svona hóflegar væntingar til að byrja með," sagði Ómar við Fótbolta.net.

,,Ef allt gengur að óskum þá er ég samt viss um að ég geti spilað og gert það vel. Ég átti mjög góðan tíma að þjálfa hjá Njarðvík í sumar og það togar vissulega að halda áfram í þjálfun."

,,Það er samt bara svo gaman að spila fótbolta að á meðan ég held að ég hafi eitthvað fram að færa á vellinum þá ætla ég að láta reyna á það."


Ómar hafði varið mark Keflavíkur í tíu ár áður en hann varð fyrir meiðslunum í fyrrasumar. Hann gæti snúið í Keflavík á nýjan leik.

,,Ég hef átt smá samtal við Keflavík og það væri fyrsti kostur hjá mér en það hefur ekki verið neitt formlegt ennþá. Ef að það gengi ekki upp sýnist mér einhverjir möguleikar vera í stöðunni hvort sem ég ætla mér að spila eða þjálfa."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner