Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fös 28. nóvember 2014 11:50
Magnús Már Einarsson
Stjarnan mun ekki fá nýjan markvörð fyrir Ingvar
Sveinn Sigurður Jóhannesson spilaði tvo leiki í Pepsi-deildinni í sumar.
Sveinn Sigurður Jóhannesson spilaði tvo leiki í Pepsi-deildinni í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjarnan ætlar ekki að fá nýjan markvörð til félagsins til að fylla skarð Ingvars Jónssonar sem samdi við norska félagið Start í dag.

Sveinn Sigurður Jóhannesson og Arnar Darri Pétursson munu berjast um markvarðar stöðuna hjá Stjörnunni næsta sumar. Hinn 19 ára gamli Sveinn Sigurður var varamarkvörður Stjörnunnar í sumar en hinn 23 ára gamli Arnar Darri var á láni hjá Víkingi Ólafsvík í 1. deildinni.

,,Við eigum tvo mjög góða markmenn sem fá tækifæri til að sýna sig og sanna. Það er yfirlýst markmið okkar að þeir muni fá tækifæri og það eru allir sammála því," sagði Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar við Fótbolta.net í dag.

,,Þetta eru sennilega tveir af efnilegustu markmönnnum á landinu í dag svo við ætlum ekki að fá einhverja eldri leikmenn þó að þeir hafi aðeins meiri reynslu. Við ætlum að gefa þessum strákum tækifæri, þeir eiga það fyllilega skilið. Þetta eru virkilega góðir markmenn og það er leitun að öðrum eins hæfileikum."

Ingvar var valinn leikmaður ársins í Pepsi-deildinni hjá Fótbolta.net en hann átti stóran þátt í að Stjarnan varð Íslandsmeistari í fyrsta skipti.

,,Ingvar er einn af okkar bestu leikmönnum og auðvitað er missir að hann skyldi fara. Þetta er gríðarlega gott tækifæri fyrir hann að fara í toppfélag í norsku úrvalsdeildinni. Við styðjum hann heilshugar í Stjörnunni og erum ánægðir fyrir hans hönd."
Athugasemdir
banner