Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 29. mars 2017 13:56
Magnús Már Einarsson
Freyr: Átti góðan fund með Hörpu
Harpa Þorsteinsdóttir.
Harpa Þorsteinsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Harpa var markahæst í undankeppni EM.
Harpa var markahæst í undankeppni EM.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari Íslands, segist hafa rætt stöðuna hjá markadrottningunni Hörpu Þorsteinsdóttur fyrir EM í Hollandi sumar. Harpa stefnir á að byrja að æfa á nýjan leik í vor eftir að hafa eignast strák í febrúar.

„Ég fundaði með Hörpu fyrir viku síðan. Við ræddum málin í fyrsta skipti eftir barnseign. Það var góður fundur þar sem við fórum yfir málin," sagði Freyr á fréttamannafundi í dag.

„Ég þurfti fyrst og fremst að fá svör við því hvort hún ætlaði að halda áfram í fótbolta. Ég fékk jákvæð svör við því. Tíminn leiðir svo í ljós hvort hún verði komin í nægilega gott stand til að spila fyrir landsliðið. Við ætlum að taka eina viku og einn leik í einu og sjá hvað tíminn leiðir í ljós."

„Hún myndi klárlega hjálpa liðinu. Hún gerir íslenska landsliðið betra þegar hún er í sínu besta formi. Hún skorar ekki bara mörk heldur skapar hún pláss fyrir liðsfélagana og tekur mikið til sín. Við höfum fundið fyrir því þegar hún er ekki með okkur."

Ekki búinn að gefast upp á öðrum leikmönnum
Þeir framherjar sem hafa fengið tækifæri í fjarveru Hörpu hafa ekki náð að skora mörk. Freyr benti á að Harpa hefði þurft nokkra leiki með landsliðinu á sínum tíma til að fara að skora. „Ég er ekki búinn að gefast upp á þeim leikmönnum sem hafa fengið tækifæri. Þær hafa hæfileika og möguleika á stíga upp en tíminn er naumur," sagði Freyr.

Freyr segist ekki ætla að ákveða lokahópinn fyrir EM snemma. Þannig fá Harpa og meiddir leikmenn eins og Hólmfríður Magnúsdóttir og Sandra María Jessen lengri tíma til að komast í toppform áður en ljóst verður hvort þær fari með til Hollands.

„VIð þurfum ekki að flýta okkur að tilkynna leikmannahópinn. Ég mun bíða eins lengi og ég fæ tíma með að velja lokahópinn. Með það að leiðarljósi að sjá leikmenn vaxa og sjá hvort okkar stóru póstar koma til baka," sagði Freyr.

Harpa var markahæst í undankeppni EM með íslenska landsliðinu en hún skoraði tíu mörk í sex leikjum. Hún vildi lítið tjá sig um EM þegar hún var í viðtali á Fótbolta.net í vikunni.

„Ég vil segja sem minnst um það. Mér finnst núna skipta mestu máli að fái frið til að koma mér í stand og byrja að spila fyrir Stjörnuna. Það er fyrsta skrefið fyrir mig. Svo er það í höndunum á Frey (Alexanderssyni, landsliðsþjálfara) að meta hvernig standi ég verð í. Það er ekki mitt að gefa út núna hvort það sé raunhæft fyrir mig. Ég mun bara taka einn leik fyrir í einu og ég ætla að njóta þess að spila fótbolta í einhvern tíma í viðbót," sagði Harpa í viðtalinu.

Sjá einnig:
Harpa: Fagnaði því að strákurinn kom fyrir tímann
Athugasemdir
banner
banner
banner