fös 29. apríl 2016 07:15
Elvar Geir Magnússon
Gunnlaugur: KV er með besta liðið
Gunnlaugur segir að Höttur ætli að berjast um að fara upp.
Gunnlaugur segir að Höttur ætli að berjast um að fara upp.
Mynd: Grétar Reynisson
Gunnlaugur Guðjónsson, þjálfari Hattar, segir að stefna liðsins sé að berjast um að komast upp í 1. deildina. Liðinu er spáð 7. sæti af þjálfurum og fyrirliðum.

„Við ætlum að berjast um tvö efstu sætin," segir Gunnlaugur en spáin kemur honum ekki á óvart. „Við vorum á þessu róli í fyrra og undirbúningstímabilið hefur ekki verið neitt sérstakt hjá okkur."

Hvernig er leikmannahópur Hattar í ár samansettur?

„Mest eru þetta heimamenn sem hafa verið í þessu í nokkur ár ásamt yngri leikmönnum. Við verðum með tvo erlenda leikmenn; Jordian Farahani og Jordan Tyler, sem hafa báðir reynslu af þessari deild. Þá höfum við fengið Alexander Má Þorláksson og Jökul Stein Ólafsson frá Fram. Við höfum misst Óttar Stein Magnússon, Óttar Guðlaugsson, Halldór Fannar Júlíusson og Aron Gauta Magnússon frá því í fyrra."

Hattarmenn ætla að bæta enn frekar við hópinn.

„Já við munum bæta eitthvað við okkur," segir Gunnlaugur en hann segir að áhuginn fyrir fótbolta á Egilsstöðum sé mikill.

„Hér eru rúmlega 200 krakkar í yngri flokkum sem æfa allt árið og margir efnilegir leikmenn á leiðinni. Svo er það bara þannig að þegar vel gengur vilja allir vera með. Það er okkar að hjálpa til við það."

Hvernig heldur hann að deildin í heild muni spilast?

„Ég held að KV sé með besta liðið og að þeir muni fara upp. Þar á eftir munu Grótta, ÍR, Afturelding og Magni berjast. Svo verður þetta barátta hjá hinum liðunum. Það er alltaf lið sem floppar og alltaf eitthvað lið sem kemur á óvart eins og Huginn í fyrra. Vonandi náum við að koma á óvart núna. Það er líka oft vanmetið að landsbyggðarliðin eru erfið heim að sækja; Magni, Völsungur, Vestri, Sindri og KF eiga ekki eftir að gefa neitt á heimavelli sínum," segir Gunnlaugur að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner