Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fös 29. apríl 2016 10:15
Magnús Már Einarsson
Luka Kostic: Öll lið geta látið sig dreyma um Leicester gengi
Luka Kostic.
Luka Kostic.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
„Við vorum að spila ýmist mjög vel eða mjög illa í vetur. Út frá því kemur spáin mér ekki á óvart," segir Luka Kostic, þjálfari Hauka, en liðinu er spáð 8. sæti í 1. deildinni í sumar í spá þjálfara og fyrirliða.

Haukar komu á óvart þegar þeir enduðu í 6. sæti í fyrra en hvað er markmið liðins í sumar?

„Eins og alltaf setjum við okkur stutt markmið sem eru næsti leikur. Við reynum að einbeita okkur og hafa fullan fókus á næsta verkefni. Mig langar að sjá strákana fulla af eldmóði, skemmta sér við að spila fótbolta samhliða því að vaxa sem knattspyrnumenn."

Björgvin Stefánsson fór frá Haukum til Vals á láni í vikunni. Björgvin skoraði 20 af 32 mörkum Hauka í fyrra og fór á kostum. Því er það mikil blóðtaka fyrir liðið að missa hann núna.

„Þetta er samkomulag á milli Björgvins og félagsins, sagði Luka um félagaskiptin en hvernig verður reynt að fylla skarð hans?

„Liðið er það sem skiptir öllu máli, aðrir leikmenn munu stíga upp. Ég sé fyrir mér nokkra leikmenn sem ég tel að muni koma skemmtilega á óvart og gera frábæra hluti í sumar. Við bættum Fufura (Elton Barros) við í vetur og Haukur Ásberg (Hilmarsson) bættist við núna. Þannig að við erum búnir að vinna að þessu í allan vetur og erum með liðið klárt fyrir sumarið."

Fufura og Haukur eru einu leikmennirnir sem hafa komið til Hauka frá síðasta tímabili. Af hverju hafa Haukar verið svona rólegir á leikmannamarkaðinum? „Stefna okkar er að vinna með uppöldum leikmönnum hjá félaginu, ég er virkilega heppinn hvað við eigum marga frambærilega leikmenn sem ég fullkomlega treysti til að leysa öll þau verkefni sem ég mun leggja fyrir þá," sagði Luka sem segir að Haukar ætli ekki að fá fleiri nýja menn inn fyrir mót.

„Við munum ekki bæta við leikmönnum, en Haukur Björnsson mun koma til baka frá skóla í Bandaríkjunum en hann var einn af byrjunarliðsmönnum á síðastliðnu ári. Hann mun koma inn sem viðbótar styrkur hjá okkur í byrjun maí."

Haukar mæta Grindavík í 1. umferðinni eftir viku en Luka er spenntur fyrir tímabilinu.

„1.deildin í ár er hörkudeild, allir geta unnið alla en þó eru nokkur lið sem hafa styrkt sig þannig að þau ættu að binda vonir við að fara upp í úrvalsdeildina. Öll hin liðin geta eigi að síður látið sig dreyma um að upplifa Leicester draum/gengi. Ég óska öllum góðs gengis og skemmtilegs knattspyrnuárs," sagði Luka að lokum.
Athugasemdir
banner