fös 29. apríl 2016 13:45
Mate Dalmay
Ráðabrugg 36. umferðar: Wenger að tryggja sér uppáhaldssætið sitt
Alexis Sanchez er búinn að vera heitur
Alexis Sanchez er búinn að vera heitur
Mynd: Getty Images
Mynd: Thule
Ráðabrugg Thule er fastur liður fyrir hverja umferð í ensku deildinni þar sem talað er af visku og gefin góð ráð til keppenda í Fantasydeild Thule og Fótbolti.net. Þó skal taka sérstaklega fram að Thule tekur enga ábyrgð ef ráðin reynast mönnum illa.

Ráðabrugg 36. umferðar

Þessi umferð gæti orðið söguleg. Leicester geta tryggt sér enska titilinn á Old Trafford þegar það eru tvær umferðir eftir. Það er svo innilega galið. Fari svo að Leicester vinni ekki á sunnudaginn gætu þeir samt orðið meistarar á mánudagskvöldið, þegar Tottenham fara í heimsókn á Stamford Bridge. Vinni Chelsea þann leik verða Leicester meistarar, sama hvað. Ráðabruggið stendur þó á því fastar en fótunum að Leicester vinni á sunnudaginn.

Verði Leicester orðnir meistarar er nokkuð líklegt að allavega önnur vígtönnin sé þar með dregin úr Tottenham liðinu. Því viljum við hafa Chelsea menn í liðinu okkar. Eden Hazard reis upp frá dauðum í seinustu umferð og setti tvö. Það skyldi þó aldrei vera að áhugi Real Madrid sé að kveikja í honum á lokasprettinum?

Arsène Wenger er alveg við það að tryggja sér uppáhaldssætið sitt, það fjórða. Þar sem Arsenal-liðið þarf ekki að hugsa um neina aðra keppni geta þeir einbeitt sér að því. Þeir fá Norwich í heimsókn um helgina sem eru að berjast fyrir lífi sínu í deildinni. Áhyggjulausir Nallarar munu þó vinna þægilegan 3-0 sigur. Alexis Sánchez er búinn að vera geggjaður upp á síðkastið eins og Alex Iwobi. Það er þó Per Mertesacker sem ætlar að halda hreinu og skora eitt í þessum leik.

Everton hafa verið í ruglinu upp á síðkastið. En Romelu Lukaku langar að komast yfir 20 marka múrinn í fyrsta skipti og mun draga vagninn yfir línuna. Gott ef hann setur ekki þrennu um helgina.

Fyrirliðar umferðarinnar:

1. Alexis Sánchez
2. Romelu Lukaku
3. Eden Hazard
Athugasemdir
banner
banner
banner