fös 29. maí 2015 12:40
Arnar Daði Arnarsson
Eyjafréttir
Jói Harðar: Erum með besta markvarðapar landsins
Jóhannes Harðarson þjálfari ÍBV.
Jóhannes Harðarson þjálfari ÍBV.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Glenn er alveg heill. Okkur finnst hann vera á réttri leið.
,,Glenn er alveg heill. Okkur finnst hann vera á réttri leið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Abel Dhaira hefur verið á bekknum í allt sumar.
Abel Dhaira hefur verið á bekknum í allt sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mikil umræða hefur skapast um útlendingamálin í herbúðum botnliðs, ÍBV í Pepsi-deild karla. Í 0-1 tapi ÍBV gegn KR í síðustu umferð voru hvorki fleiri né færri en sex erlendir leikmenn á bekknum.

Menn hljóta því að spyrja sig að því, hvort erlendu leikmennirnir í liðinu eru ekki betri en raun ber vitni og hvort það sé ekki betur farið með féð að fá færri erlenda leikmenn og betri fyrir vikið og fylla bekkinn af ungum og efnilegum Eyjamönnum.

Við höfðum samband við Jóhannes Harðarson, þjálfara ÍBV og spurðum hann hvort þessi umræða um útlendinga í hans liði sé ósanngjörn?

Reynum að ná í góða leikmenn
„Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja. Við reynum að gera eins vel og við getum. Við erum í þannig aðstöðu að við neyðumst til að sækja leikmenn erlendis frá. Við eigum auðveldara með það en að sækja Íslendinga."

„Við höfum ekki ótakmarkað byrgði af peningum þannig við verðum að reyna leysa þetta skynsamlega en samt sem áður verðum við að hafa nægilega breidd í hópnum. Við reynum að ná í eins góða leikmenn og við getum með það fjármagn sem við höfum," sagði Jóhannes sem er með átta erlenda leikmenn í hópnum. Þar af eru tveir sem komu eftir að mótið hófst, þeir Sead Gavranovic og Jonathan Patrick Barden.

„Við höfum fengið inn tvo nýja leikmenn nýverið. Þeir eru enn að komast inn í þetta hjá okkur. Annar þeirra kom inná í síðasta leik og báðir eru þeir líklegir á sunnudaginn. Svo vitum við að við eigum mikið inni hjá Jonathan Glenn og fleiri leikmönnum," sagði Jóhannes sem vonast til að fá meira úr þeim leikmönnum og þá gæti staða liðsins breyst töluvert.

Glenn fer vaxandi
Jonathan Glenn skoraði 12 mörk fyrir ÍBV í fyrra og vann silfurskóinn, sem næst markahæsti leikmaður Pepsi-deildarinnar. Hann hefur hinsvegar ekki náð sér á strik í sumar og hefur byrjað á bekknum hjá ÍBV í síðustu leikjum.

„Glenn er alveg heill. Okkur finnst hann vera á réttri leið. Hann er allur að koma til og fer vaxandi," sagði Jóhannes. Það vekur athygli að hann talar um að hann fari vaxandi. Hvernig getur leikmaður sem vann silfurskóinn í fyrra farið vaxandi með því að sitja á varamannabekknum hjá neðsta liði deildarinnar um þessar mundir?

„Það er ástæða fyrir því að aðrir hafa verið valdir á undan honum í liðið. Menn fá ekkert fyrir það í ár sem gerðist í fyrra. Þetta er nýtt tímabil og menn verða að standa sig á æfingum og leikjum til að fá að spila."

„Við reynum að finna það lið sem við teljum fúnkera. Viðhorfið hans við þessu hefur verið frábært finnst mér. Hann hefur tekið þessu hárrétt og hefur verið að koma mjög sterkur til baka."

Abel tekið þessu á svipaðan hátt og Glenn
Markvörðurinn, Abel Dhaira frá Úganda hefur ekki enn spilað mínútu með ÍBV í sumar. Hann hefur varið mark ÍBV undanfarin fjögur ár, að undanskyldu árinu 2013 þegar hann lék með FC Simba í Tansaníu.

„Abel hefur tekið þessu á svipaðan hátt og Glenn. Hann styður Guðjón í því sem hann er að gera. Á sama tíma tekur hann þessari samkeppni mjög alvarlega. Við erum heppnir að hafa svona mikla samkeppni í markvarðarstöðunni. Ég tel okkur vera með besta markvarðapar landsins. Guðjón hefur staðið sig frábærlega hingað til þrátt fyrir mistökin í markinu í síðasta leik," sagði Jóhannes Harðarson að lokum í samtali við Fótbolta.net.

Eyjamenn taka á móti Víkingum í 6. umferð Pepsi-deildarinnar á sunnudaginn.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner