fim 29. september 2016 09:07
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Morgunblaðið 
Óvissa hjá Gumma Kristjáns eftir tímabilið
Mynd: Getty Images
Tímabilið hjá Guðmundi Kristjánssyni og félögum í Start í norsku úrvalsdeildinni hefur verið ansi dapurt. Liðið vann sinn fyrsta leik á tímabilinu um síðustu helgi en er langneðst í deildinni og ljóst að það fellur niður í B-deildina.

„Tímabilið hefur verið vægast sagt erfitt. Þótt leikmannahópurinn hjá okkur sé mun veikari en síðustu árin bjóst ég ekki við þessu," segir Guðmundur við Morgunblaðið en fimm umferðir eru eftir.

„Undanfarið hefur maður mátt sætta sig við að sitja á varamannabekknum. Eins og gerist stundum heima vilja menn gefa uppöldum leikmönnum tækifæri þegar illa gengur á kostnað útlendinganna. Ég get svo sem skilið það,"

Guðmundur, sem er 27 ára, veit ekki hvað tekur við hjá sér eftir tímabilið. Hann á ár eftir af samningi sínum en Start á í fjárhagserfiðleikum og þurft að selja leikmenn.

„Mér þykir orðið vænt um félagið og leiðinlegt gæti verið að skilja við félagið í leiðinlegri stöðu. Auk þess hefur fjölskyldan haft það gott og dóttir mín er byrjuð í leikskóla hér. En B-deildin er ekki spennandi kostur og maður skoðar það sem býðst þegar tímabilinu lýkur," segir Guðmundur, sem er fyrrum leikmaður Breiðabliks, í viðtalinu við Morgunblaðið.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner