lau 30. apríl 2016 10:15
Magnús Már Einarsson
Ási Arnars: Töldum rétt að gera breytingar
Ásmundur Arnarsson þjálfari Fram.
Ásmundur Arnarsson þjálfari Fram.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fram, segir að það komi ekki á óvart að liðinu sé spáð 7. sæti í 1. deildinni í sumar.

„Nei, ekki í sjálfu sér. Síðastliðin tvö ár hafa verið erfið hjá klúbbnum og miklar breytingar átt sér stað. Breytingar á leikmannahóp, þjálfurum, stjórn og meira að segja heimavelli. Liðið endaði í 9.sæti í fyrra eftir að hafa verið í harðri fallbaráttu lengst af og miðað við hvernig veturinn hefur þróast tel ég ekkert óeðlilegt að liðinu sé spáð um miðja deild," sagði Ásmundur við Fótbolta.net en hvert er markmiðið í sumar?

„Við fórum af stað síðastliðið haust með það markmið að búa til leikmannahóp sem væri samkeppnishæfur um efstu tvo sæti deildarinnar, samhliða því að byggja upp kjarna ungra heimamanna í bland við aðra leikmenn sem fylgja okkur áfram svo að í framhaldinu sé hægt að minnka þá leikmannaveltu sem verið hefur hjá klúbbnum síðastliðin ár."

Gífurlegar breytingar hafa orðið á leikmannahópi Fram í vetur en 17 nýir leikmenn eru komnir og 14 hafa horfið á braut. Af hverju eru þessar miklar breytingar?

„Það byggist að mestu leyti á ofangreindu svari. Það voru bæði lánsmenn og erlendir leikmenn sem yfirgáfu félagið eftir síðasta tímabil svo það var ljóst að styrkja þyrfti hópinn. Í ljósi þess hvernig liðinu hafði gengið töldum einnig við rétt að gera þær breytingar sem gerðar hafa verið í vetur."

Ásmundur útilokar ekki að fleiri breytingar geti orðið á liði Fram fyrir mót. „Við erum í sjálfu sér ekki að leita að meiri liðsstyrk en maður útilokar slíkt aldrei."

Fram byrjar líkt og í fyrra á tveimur útileikjum á Akureyri gegn KA og Þór en Ásmundur reiknar með hörkukeppni í sumar.

„Deildin gæti orðið jöfn og skemmtileg. Það eru auðvitað mjög öflug lið þarna eins og KA, Keflavík og Leiknir R en það eru líka mörg önnur sem ætla sér stóra hluti. Margir spá austanliðunum erfiðu gengi en ég gæti alveg eins trúað því að þau kæmu á óvart," sagði Ásmundur.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner