Haaland, Toney, Gomes, Diomande, Gyokeres, Southgate, O'Neil, De Zerbi og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   þri 30. júní 2015 17:15
Arnar Daði Arnarsson
Bestur í 1. deild: Ágætis breyting frá því í fyrra
Leikmaður 8.umferðar: Alfreð Már Hjaltalín (Víkingur Ó.)
Alfreð Már er leikmaður umferðarinnar í 1. deild karla.
Alfreð Már er leikmaður umferðarinnar í 1. deild karla.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta var skemmtilegur sumar leikur. Það var gott veður og sólin skein. Þetta var virkilega skemmtilegt. Ég var ánægður með minn leik, sérstaklega fyrri hálfleikinn," sagði Alfreð Már Hjaltalín leikmaður Víkings Ó.

Hann er leikmaður 8. umferðar í 1. deildinni en hann átti virkilega góðan leik í 2-0 sigri liðsins á Grindavík í Ólafsvík um helgina. Hann kom Víking Ólafsvík á bragðið með fyrsta marki leiksins og var síðan mjög líflegur á vængnum hjá Ólafsvíkingum.

Ánægðir með byrjunina
„Við byrjuðum af krafti í fyrri hálfleik og náðum að setja mark á þá strax. Síðan datt tempó-ið aðeins niður í seinni hálfleik, menn voru orðnir þreyttir og mikill hiti. Þá byrjuðu aðeins að sækja en við kláruðum þetta síðan með öðru marki."

Ólafsvíkingar hafa unnið síðustu fjóra deildarleiki sína og eru sem stendur í 2. sæti deildarinnar með 19 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Þróttar.

„Þetta gengur vel eins og er. Það er mikið eftir af þessu móti. Þetta verður barátta allt til enda milli 5-6 liða. Við erum ánægðir með byrjunina, þetta er nánast nýr hópur hjá okkur og erum enn að spila okkur saman."

Hefur skorað helming marka liðsins
Alfreð Már hefur heldur betur verið á skotskónnum í sumar, en hann hefur skorað fimm af tíu mörkum liðsins í deildinni.

„Það er alltaf skemmtilegt að skora. Svo lengi sem mörkin eru að skila stigum þá er ég sáttur. Þetta er ágætis breyting frá því í fyrra. Ég spilaði aðallega í bakverðinum í fyrra en hef verið á kantinum í nánast allt sumar. Það hefur skilað sér í fleiri mörkum frá mér."

Það verður heldur betur stórleikur í 1. deildinni á fimmtudaginn þegar KA og Víkingur Ó. mætast fyrir norðan. "Do or die" leikur fyrir KA sem er fimm stigum á eftir Víkingum í deildinni.

„Við vitum að KA er með mjög sterkt lið og þetta verður hörkuleikur. Við vitum að KA er með hóp til að vera í toppbaráttunni. Við förum í alla leik til að vinna en síðan sér maður til eftir leik, hvort við verðum ánægðir með eitt stig."

„Við erum alveg á jörðinni þó svo að við séum í 2. sæti eins og stendur. En við stefnum klárlega á að halda okkur þar," sagði Alfreð Már að lokum.

Sjá einnig:
Leikmaður 1. umferðar - Orri Gunnarsson (Fram)
Leikmaður 2. umferðar - Dion Acuff (Þróttur)
Leikmaður 3. umferðar - Oddur Björnsson (Þróttur)
Leikmaður 4. umferðar - Pétur Bjarnason (BÍ/Bolungarvík)
Leikmaður 5. umferðar - Trausti Sigurbjörnsson (Þróttur)
Leikmaður 6. umferðar - Ingþór Björgvinsson (Selfoss)
Leikmaður 7. umferðar - Hafþór Þrastarson (Fjarðabyggð)
Athugasemdir
banner
banner
banner