Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   fös 30. september 2016 12:00
Elvar Geir Magnússon
Pepsi-deildin
Ævar Ingi: Erfitt að díla við það að vera á bekknum
Ævar Ingi er að klára sitt fyrsta tímabil í efstu deild.
Ævar Ingi er að klára sitt fyrsta tímabil í efstu deild.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í flóðljósunum í Garðabæ.
Í flóðljósunum í Garðabæ.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Ævar í baráttu við Bödda löpp.
Ævar í baráttu við Bödda löpp.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Ævar Ingi Jóhannesson er að klára sitt fyrsta tímabil í efstu deild en þessi ungi kantmaður Stjörnunnar verður í eldlínunni í lokaumferð Pepsi-deildarinnar á morgun. Hann segist ágætlega sáttur með tímabil sitt þó það hafi verið kaflaskipt, líkt og hjá liðinu sjálfu.

„Ég er ágætlega sáttur með þetta tímabil. Það byraði nokkuð vel hjá mér en í kringum EM pásuna var ég ekki að spila nógu vel og var þá tekinn út. Hjá liði eins og Stjörnunni er ekki í boði að vera spila bara „allt í lagi". Við erum með frábæran hóp og það er mikil samkeppni," segir Ævar við Fótbolta.net.

„Það var nýtt fyrir mig að lenda svona á bekknum og ég þurfti að díla við það. Ég lærði helling á því og reyndi að einbeita mér að sjálfum mér. Það er ömurlegt að vera ekki að spila og það tekur á andlega. En maður verður bara að hafa trú á sér og reyna að nýta tækifærin vel."

Þegar Ævar, sem er U21-landsliðsmaður, fékk tækifærið aftur greip hann það.

„Ég er búinn að vera ánægður með leik minn síðustu leiki. Sjálfstraustið er komið aftur og það er góður stígandi í þessu. Svo já, ég er bara þokkalega ánægður með tímabilið mitt en hefði auðvitað viljað skorað meira," segir Ævar sem er kominn með tvö mörk í Pepsi-deildinni.

Skemmtilegra þegar eitthvað er undir
Stjörnumenn hafa unnið þrjá leiki í röð og ljóst að þeir gulltryggja Evrópusæti með því að vinna Víking Ólafsvík á heimavelli í lokaumferðinni á morgun.

„Stemningin í Garðabænum er mjög góð núna, við erum komnir á skrið aftur og það léttir lundina að vinna leiki. Annars er miklu skemmtilegra að spila leiki þegar það er eitthvað undir. Það er hundleiðinlegt að spila síðustu umferðirnar uppá ekki neitt," segir Ævar.

„Stöðuleikinn hjá okkur í sumar hefur ekki verið nógu góður og það er eitthvað sem við þurfum klárlega að laga. Við erum ekki búnir að finna einhverja töfralausn á því en við erum komnir á fínt skrið núna og við verðum að halda því áfram og taka það með inní næsta tímabil. Klára annað sætið og reyna svo að enda einu sæti ofar á næsta tímabili."

Ólafsvíkurliðið mun selja sig dýrt á morgun enda er það í fallhættu fyrir umferðina.

„Þetta er mjög mikilvægur leikur fyrir bæði lið og ég held að þetta verði bara hörkuleikur. Við vitum að Ólsararnir eru mjög þéttir til baka og það er erfitt að brjóta vörnina þeirra niður. Þeir hafa líka flotta sóknarmenn sem geta valdið usla. Því mæli ég bara eindregið með því að fólk mæti á flottan fótbolta leik á rennisléttu teppinu í Garðabæ á morgun."

Ekki farinn að hugsa svo langt
Ævar Ingi er uppalinn hjá KA en hans fyrrum félagar unnu Inkasso-deildina í sumar og því ljóst að Ævar mætir þeim næsta sumar.

„Heyrðu, ég er nú bara ekki byrjaður að hugsa svo langt. Það verður klárlega skrýtin og örugglega stórfurðuleg tilfinning að mæta á Akureyrarvöll að spila gegn KA en ekki með þeim. Þú spyrð mig bara aftur þegar nær dregur," segir Ævar þegar hann var spurður út í hvenrig tilhugsunin væri að keppa gegn KA í Pepsi-deildinni.

Lokaumferðin á laugardag
14:00 KR-Fylkir (Alvogenvöllurinn)
14:00 FH-ÍBV (Kaplakrikavöllur)
14:00 Valur-ÍA (Valsvöllur)
14:00 Stjarnan-Víkingur Ó. (Samsung völlurinn)
14:00 Breiðablik-Fjölnir (Kópavogsvöllur)
14:00 Þróttur R.-Víkingur R. (Þróttarvöllur)

Sjá einnig:
Lokaumferðin - Hvað getur gerst?

Útvarpsþátturinn Fótbolti.net verður framlengdur næsta laugardag vegna lokaumferðar Pepsi-deildarinnar. Þátturinn verður tveggja tíma lengri en venjan er, milli 12 og 16. Fylgst verður með gangi mála á X-inu þar til flautað verður til leiksloka og úrslit ráðast.

Þú getur hlustað á X-ið á netinu með því að smella hérna

Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner