Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mán 30. nóvember 2015 11:00
Magnús Már Einarsson
Næstum búinn að „taka Forrest Gump“ á Laugardalsvelli
Jón Daði hleypur í burtu eftir að hafa skorað markið gegn Tyrkjum.
Jón Daði hleypur í burtu eftir að hafa skorað markið gegn Tyrkjum.
Mynd: Sunnlenska.is - Guðmundur Karl
Bókin Áfram Ísland kom út nýverið en þar er fjallað um leið Íslands í lokakeppni EM 2016 og leikmenn íslenska landsliðsins. Í bókinni er að finna skemmtilega lýsingu Jóns Daða Böðvarssonar á því þegar hann skoraði fyrsta mark undankeppninnar og sitt fyrsta mark fyrir landsliðið gegn Tyrkjum á Laugardalsvelli haustið 2014.

Jón Daði viðurkennir að honum hafi brugðið þegar honum var tilkynnt að hann skyldi byrja inn á í leiknum. „Ég hafði í raun aldrei upplifað svona stóran leik áður. Inni í klefa voru allir að hvetja hver annan áfram en ég var alveg þögull, ég var bara svo einbeittur. Eðlilega var ég dálítið stressaður en um leið og þjóðsöngurinn hófst þá var ég eiginlega bara kominn í zone-ið. Stressið gufaði upp og ég naut augnabliksins alveg ótrúlega. Adrenalínið fór á fullt svo leikurinn leið ótrúlega hratt. Ég áttaði mig bara á því eftir leikinn hvað ég hefði í rauninni gert vel,“ segir Jón Daði.

Eins og margir muna skoraði Jón Daði fyrsta mark leiksins eftir 18 mínútna leik. Það var skiljanlega stór stund í lífi Selfyssingsins. „Það varð allt svart í kringum mig þegar boltinn fór inn og ég hugsaði ekki rökrétt. Ég hljóp eins og einhver loftlaus blaðra og vissi ekkert hvernig ég átti að fagna,“ segir Jón Daði um markið sem hann skoraði fyrir framan troðfullan Laugardalsvöll. „Ég var næstum því búinn að taka Forrest Gump á þetta og hlaupa út af vellinum. Það er ennþá gert grín að því hvernig ég brást við.“

Hann segir markið hafa hjálpað honum heilmikið hvað sjálfstraust varðar í framhaldinu í keppninni. „Eftir þennan leik leið mér einhvern veginn eins og ég væri tilbúinn í allt,“ segir Jón Daði.
Athugasemdir
banner
banner