Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 31. júlí 2016 06:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Fylkir og Grótta/KR með gull á USA Cup
Grótta/KR sigraði eftir dramatískan lokadag
Grótta/KR sigraði eftir dramatískan lokadag
Mynd: Aðsend
Í síðustu viku tóku fjögur íslensk félög þátt á USA Cup sem er stærsta fótboltamót í Ameríku. Mótið er haldið í Minneapolis í Minnesota fylki en meira en 15.000 leikmenn frá 19 löndum tóku þátt. 3. flokkur kvenna hjá Gróttu/KR sendi tvö lið til leiks, 3. flokkur kvenna hjá Val eitt lið, 3. flokkur karla hjá Fylki var með þrjú lið og 4. flokkur kvenna hjá Breiðabliki með tvö lið.

Mótinu er skipt í gull og silfur deildir og er liðum raðað í þær eftir áætluðum styrkleika. Valsstelpur léku í gulldeild U16 ára keppninnar og voru með fullt hús stiga eftir riðlakeppnina. Í 8-liða úrslitum áttu þær hins vegar ekki roð í FC Frederick frá Maryland fylki og töpuðu 6-1. Blikar voru með eitt lið í gulldeild U14 ára keppninnar sem fór í B-úrslit og annað lið í silfurdeildinni. Þar gerðu Blikastelpur góða hluti og fóru alla leið í undanúrslit þar sem þær töpuðu naumlega.

Bæði lið Gróttu/KR léku í silfurdeildinni og datt U15 ára liðið út í 8-liða úrslitum. U16 ára liðið gerði sér hins vegar lítið fyrir og sigraði mótið eftir dramatískan lokadag þar sem úrslitaleikurinn var flautaður af vegna þrumuveðurs og eldinga og leikar voru útkljáðir í vítaspyrnukeppni þegar loksins stytti upp. Þetta er fyrsti titillinn í sögu Gróttu/KR samstarfsins sem hófst haustið 2013. Hér má lesa umfjöllun dagblaðsins ABC newspaper um framgöngu íslensku stelpnanna á mótinu.

Fylkismenn fóru sömuleiðis heim með gullpening um hálsinn. Tvö Fylkislið léku í silufdeildinni og náðu bæði góðum árangri en A-lið Fylkis lék í gulldeildinni og endaði þar fremst á meðal jafningja. Í undanúrslitum sigruðu Árbæingar lið frá höfuðborg Panama en í úrslitum var leikið við Chivas Houston frá Texas. Þar sigraði Fylkir 2-0 í spennandi leik og varð þar með fyrsta íslenska liðið til að vinna gulldeild á USA Cup. Sannarlega frábær árangur.
Athugasemdir
banner
banner