Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   mán 31. ágúst 2015 11:16
Magnús Már Einarsson
Hver er Anthony Martial?
Anthony Martial.
Anthony Martial.
Mynd: Getty Images
Allt bendir til þess að Manchester United muni kaupa framherjann unga Anthony Martial frá Monaco á 36 milljónir punda áður en félagaskiptaglugginn á Englandi lokar á morgun.

Martial var í síðustu viku kallaður í franska landsliðshópinn í fyrsta skipti en hann hefur nú fengið leyfi til að fara úr hópnum yfir til Englands til að ganga frá vistaskiptum sínum.

Martial er 19 ára gamall en hann gekk til liðs við unglingalið Lyon þegar hann var 14 ára gamall. Hjá Lyon vakti Martial athygli þegar hann skoraði 32 mörk í 21 leik á einu tímabili með U17 ára liði félagsins.

Martial var í kjölfarið valinn í franska U17 ára landsliðið en tölfræði hans með yngri landsliðum Frakka er góð. Hann skoraði meðal annars níu mörk í þrettán leikjum með U17 ára landsliðinu.

Árið 2013 keypti Monaco síðan Martial frá Lyon á 3,6 milljónir punda. Á síðasta tímabili skoraði Martial átta mörk í 31 leik í frönsku úrvalsdeildinni.

Getur spilað frammi og á kanti
Martial getur bæði spilað sem fremsti maður og á kantinum. Líklegt er að Louis van Gaal, stjóri Manchester United, hugsi hann sem fremsta mann hjá United. Helsti galli Martial er að hann þykir ekki góður í loftinu en hann er duglegur að koma sér í færi.

Í Frakklandi hefur Martial verið líkt við Thierry Henry. Martial þykir fljótur líkt og Henry var og hann getur spilað bæði á kantinum og frammi. Hann þykir einnig vera öflugur einn á einn. Þá spilaði Henry líka með Monaco eins og Martial á sínum tíma.

Hvort að Martial nái að slá í gegn í enska boltanum eins og Henry verður síðan að koma í ljós en ljóst er að United er að kaupa mikið efni.


Athugasemdir
banner
banner
banner