fös 10. desember 2010 15:32
Magnús Már Einarsson
Heimild: Heimasíða KSÍ 
Gylfi Þór og Hólmfríður knattspyrnufólk ársins
<b>Knattspyrnumaður ársins:</B> Gylfi Þór Sigurðsson.
Knattspyrnumaður ársins: Gylfi Þór Sigurðsson.
Mynd: Getty Images
<b>Knattspyrnukona ársins:</B> Hólmfríður Magnúsdóttir.
Knattspyrnukona ársins: Hólmfríður Magnúsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Leikmannaval KSÍ hefur valið Gylfa Þór Sigurðsson og Hólmfríði Magnúsdóttur knattspyrnufólk ársins 2010. Þetta er í sjöunda skiptið sem að knattspyrnufólk ársins er sérstaklega útnefnt af KSÍ.

Það eru fjölmargir aðilar, m.a. fyrrverandi landsliðsmenn, þjálfarar og forystumenn í knattspyrnuhreyfingunni, er velja knattspyrnufólk ársins. Veitt eru verðlaun fyrir þrjú efstu sætin hjá körlum og konum.

Þau sem lentu í þremur efstu sætunum í Leikmannavali KSÍ 2010 hjá körlum og konum eru eftirfarandi:

Knattspyrnumaður ársins 2010 - Gylfi Þór Sigurðsson
Gylfi Þór Sigurðsson hefur svo sannarlega átt eftirminnilegt ár á knattspyrnuvellinum. Hann varð einn af markahæstu mönnum í ensku Championship-deildinni á síðasta tímabili en hann gerði 17 mörk í 38 leikjum fyrir Reading. Hann var valinn leikmaður deildarinnar í aprílmánuði og í lok tímabilsins var hann útnefndur leikmaður ársins hjá Reading. Þýska úrvalsdeildarliðið Hoffenheim keypti Gylfa í lok ágúst fyrir háa fjárhæð og þar hefur hann byrjað ákaflega vel, leikið 11 leiki og skorað í þeim 5 mörk.

Gylfi lék sína fyrstu A-landsleiki á árinu, þrjá talsins, og byrjaði inná í þeim öllum. Þá var hann lykilmaður í U21 liðinu sem tryggði sér eftirminnilega sæti í úrslitakeppni EM í Danmörku. Hann lék 3 leiki með því liði á árinu og skoraði þrjú eftirminnileg mörk, eitt gegn Þjóðverjum í Kaplakrika og tvö gegn Skotum í Edinborg. Þessi mörk komu beint úr aukaspyrnu og úr langskotum, eitthvað sem Gylfi hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir.

Knattspyrnukona ársins 2010 - Hólmfríður Magnúsdóttir
Hólmfríður Magnúsdóttir var fastamaður í liði Philadelphia Independence í bandarískuatvinnumannadeildinni. Liðið kom nokkuð á óvart og stóð uppi í lok tímabilsins með silfurverðlaunin í höndunum. Hólmfríður lék nánast allar stöður á vellinum á þessu tímabili með Philadelphia en mest þó í bakverðinum, eitthvað sem er ný staða fyrir Hólmfríði en hún leysti hana með prýði.

Sem fyrr var Hólmfríður einn af lykilleikmönnum íslenska landsliðsins. Hún lék níu landsleiki á árinu og skoraði í þeim sjö mörk. Hún er nú orðin þriðja markahæsta landsliðskonan frá upphafi, hefur skorað 22 mörk í 59 landsleikjum.

2. sæti karla - Alfreð Finnbogason
Alfreð Finnbogason var einn af lykilleikmönnum í hinu unga liði Breiðabliks sem tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn á árinu í fyrsta skipti í sögu félagsins. Hann var einn af þremur leikmönnum Pepsi-deildarinnar sem að skoruðu fjórtán mörk og hlaut silfurskóinn að launum Hann var einnig duglegur að leggja upp mörk fyrir félaga sína og var valinn leikmaður ársins í Pepsi-deildinni af leikmönnum sjálfum.

Alfreð lék sína fyrstu A landsleiki á árinu. Þeir urðu tveir talsins og skoraði hann eitt mark í vináttulandsleik gegn Ísrael nú í nóvember. Hann kom líka mikið við sögu með U21 liðinu en þar lék hann þrjá leiki á árinu og skoraði tvö mörk Alls lék hann sex leiki með U21 liðinu í undankeppni EM og skoraði í þeim fimm mörk. Alfreð samdi nýlega við belgíska félagið Lokeren og mun ganga til liðs við það í byrjun næsta árs.

2. sæti kvenna - Þóra B. Helgadóttir
Þóra B. Helgadóttir lék með Malmö í Svíþjóð og var þar aðalmarkvörður liðsins. Malmö varð meistari í fyrsta sinn í 16 ár og lék Þóra þar stórt hlutverk, lék 21 af 22 leikjum liðsins í deildinni. Yfirburðir Malmö í deildinni voru miklir en liðið tapaði aðeins einum leik á tímabilinu, í næstsíðustu umferð. Þóra lék 6 landsleiki á árinu og er nú orðin þriðja leikjahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi með 74 landsleiki.

3. sæti karla - Grétar Rafn Steinsson
Grétar Rafn Steinsson hefur gegnt æ stærra hlutverki hjá liði sínu Bolton í ensku úrvalsdeildinni en liðið er þar í sjötta sæti. Á yfirstandandi keppnistímabili hefur hann leikið 12 leiki og skorað í þeim 1 mark. Hann er einnig einn af lykilleikmönnum landsliðsins og lék þrjá landsleiki á árinu. Landsleikirnir eru nú orðnir 41 og hefur Grétar skorað 4 mörk í þessum leikjum.

3. sæti kvenna - Dóra María Lárusdóttir
Dóra María Lárusdóttir var sem fyrr ein af burðarásum hins sterka Valsliðs. Valur varð Íslandsmeistari 5. árið í röð og lék Dóra María þar stórt hlutverk en hún lék alla 18 leikina og skoraði í þeim þrjú mörk. Hún var einnig í lykilhlutverki þegar Valur varð VISA-bikarmeistari annað árið í röð. Dóra María var svo valin leikmaður ársins af leikmönnum í Pepsi-deildinni og var það í annað sinn á þremur árum sem hún hlýtur þá nafnbót. Hún tók þátt í öllum 10 landsleikjum ársins og skoraði eitt mark. Hún er nú sjöunda leikjahæsta landsliðskonan með 64 landsleiki og hefur skorað í þeim 11 mörk.
banner
banner