Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mán 30. júlí 2007 17:07
Hafliði Breiðfjörð
Teitur Þórðarson rekinn frá KR - Logi tekur við
Teitur Þórðarson hefur verið rekinn frá KR.
Teitur Þórðarson hefur verið rekinn frá KR.
Mynd: Fótbolti.net - Jón Steinarr
Logi Ólafsson tekur við KR.
Logi Ólafsson tekur við KR.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Teitur Þórðarson hefur verið rekinn úr starfi þjálfara KR og Logi Ólafsson fyrrum landsliðsþjálfari Íslands er tekinn við liðinu og stýrir sinni fyrstu æfingu hjá liðinu í dag en Logi er mættur á æfinguna í KR-heimilið og stýrir liðinu út tímabilið til að byrja með.

Logi Ólafsson hefur ekki þjálfað félagslið hér á landi síðan hann stýrði FH um aldamótin en hann kom liðinu þá í efstu deild á ný eftir mörg ár í næst efstu deild og stýrði liðinu til þriðja sætis í efstu deild árið 2001. Hann hóf þjálfaraferil sinn árið 1987 er hann þjálfaði kvennalið Vals í tvö ár en þaðan lá leiðin til Víkinga sem hann þjálfaði árin 1990-1992 og gerði liðið að Íslandsmeisturum 1991.

1993-1994 þjálfaði hann kvennalandslið Íslands og árið 1995 stýrði hann ÍA og gerði liðið að Íslandsmeisturum. Árið eftir tók hann við landsliði Íslands og stýrði þeim 1996-1997 og fór þaðan aftur til ÍA 1997 og 1998.

Hann tók svo við FH og stýrði liðinu ásamt því að stýra kvennalandsliðinu árið 2000. Hann hætti hjá FH eftir tímabilið 2001 og varð aðstoðarþjálfari Lilleström. Hann tók svo aftur við Íslenska landsliðinu eftir að hann kom heim og stýrði liðinu ásamt Ásgeiri Sigurvinssyni árin 2003-2005.

Teitur Þórðarson tók við KR haustið 2005 og gerði fimm ára samning við félagið sem átti að gilda út árið 2010. Á fyrsta ári í fyrra endaði KR í öðru sæti deildar og bikar en þrátt fyrir að hafa einn besta leikmannahóp landsins hefur gengi liðsins verið afleitt það sem af er og KR verið í neðsta sæti deildarinnar allt tímabilið og er nú að loknum 11 umferðum enn í neðsta sæti en með 7 stig. Næsti leikur KR er gegn Håcken í UEFA Cup á fimmtudagskvöld en fyrri leik liðanna lauk með 1-1 jafntefli. Í Landsbankadeildinni er næsti leikur liðsins gegn Val miðvikudaginn í næstu viku, 8. ágúst.

Innan skamms munum við birta viðtöl við Teit Þórðarson og Jónas Kristinsson formann KR-Sport en auk þess munum við reyna að ná tali af Loga Ólafssyni en hann stýrir nú æfingu KR liðsins í Frostaskjóli.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner