Mainoo fær nýjan samning - Goretzka og Gomes orðaðir við Man Utd - Bremer og Kerkez við Liverpool
banner
   mið 05. maí 2010 07:00
Fótbolti.net
Spá þjálfara og fyrirliða í 2.deild karla: 11. sæti
Mynd: Fótbolti.net-Vilbogi M Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Mynd: Fótbolti.net - Vilbogi M. Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Vilbogi M Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Vilbogi M Einarsson
Mynd: Fótbolti.net - Vilbogi M Einarsson
Fótbolti.net ætlar að fjalla vel um aðra deildina í sumar eins og undanfarin ár og við ætlum að hita vel upp með því að birta spá fyrirliða og þjálfara í deildinni fram að móti.

Við fengum alla fyrirliða og þjálfara til að spá og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í ellefta sæti í þessari spá var Hamar sem fék 50 stig af 242 mögulegum. Kíkjum á umfjöllun okkar um Hamar.


11. Hamar
Búningar: Blá treyja, bláar buxur, bláir sokkar.
Heimasíða: http://www.hamarsport.is
Lokastaða í fyrra: 10.sæti í 2.deild

Hamar hefur tvö ár í röð bjargað sér frá falli á ótrúlegan hátt og stuðningsmenn liðsins ættu að vera vanir mikillri dramatík. Árið 2008 var sætið í annarri deild ekki tryggt fyrr en í desember þegar að dæmt var í kærumáli Tindastóls gegn ÍH. Í fyrra gekk Hamarsmönnum síðan skelfilega til að byrja með og fyrsti sigurinn kom ekki í hús fyrr en í tíundu umferð gegn BÍ/Bolungarvík. Þegar Hamar átti fjóra leiki eftir virtist staða liðsins vera nánast vonlaus en þá settu Hvergerðingar í gírinn.

Hamar vann þrjá af síðustu fjórum heimaleikjum sínum og eftir 2-1 sigur á Viði í lokaumferðinni var sætið tryggt eftir að Tindastóll tapaði gegn Hvöt á sama tíma. Ágúst Örlaugur Magnússon, fyrirliði Hamars, lék í Noregi fyrri hlutann á síðasta tímabili en gengi Hvergerðinga batnaði mikið þegar hann kom aftur og þessi baráttuglaði miðjumaður skoraði meðal annars bæði mörkin í lokaleiknum gegn Víði.

Lélegt gengi í byrjun móts í fyrra má líklega rekja til þess að Hamar mætti með nánast alveg nýtt lið frá því árið 2008. Jón Aðalsteinn Kristjánsson tók við stjórnartaumunum hjá Hamri og hann fékk marga unga leikmenn af höfuðborgasvæðinu með sér austur fyrir fjall fyrir síðasta tímabil.

Margir af þessum strákum fengu dýrmæta reynslu síðastliðið sumar og þrír þeirra munu líklega vera í leikmannahópi hjá liðum í Pepsi-deildinni á komandi tímabili. Ellert Finnbogi Eiríksson fór aftur í Val og Kristinn Ingi Halldórsson aftur í Fram. Kjartan Sigurðsson, sem var fyrirliði í fyrri hluta móts í fyrra, samdi einnig við Selfyssinga og þar misstu Hamarsmenn lykilmann úr vörninni hjá sér. Jón Kári Ívarsson, efnilegasti leikmaðurinn í annarri deild í fyrra, fór frá Hamar í Hvöt, fyrirliðinn Sölvi Örn Sölvason lagði skóna á hilluna og miðjumaðurinn Milos Milojevic fór til Víkings R. í vetur en alls eru ellefu leikmenn farnir frá Hvergerðingum síðan í fyrra.

Í staðinn hefur Jón Aðalsteinn farið sömu leið og áður en hann hefur fengið unga leikmenn frá félögum á höfuðborgarsvæðinu. Alls hafa ellefu leikmenn gengið til liðs við Hamar frá því á síðasta tímabili og það má reikna með að það muni taka smá tíma fyrir liðið að stilla saman strengi sína líkt og í fyrra.

Meðal þeirra sem eru komnir eru Axel Ingi Magnússon og Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson sem léku með Aftureldingu í fyrstu deildinni í fyrra sem og fimm strákar sem gengu upp úr öðrum flokki hjá sínum félögum síðastliðið haust. Liðið er þó ekki bara byggt upp á aðkomumönnum en spennandi verður að fylgjast með hinum sautján ára gamla Ingþóri Björgvinssyni sem hefur fengið smjörþefinn af því að leika með Hamri undanfarin tvö tímabil.

Hamar hefur verið spáð neðsta sæti í annarri deildinni fyrir síðustu tvo tímabil en liðinu hefur tekist að blása á þær hrakspár hingað. Í ár er liðinu aftur spáð fallsæti og miðað við árangurinn í Lengjubikarnum gæti sumarið orðið erfitt fyrir Hvergerðinga. Hamar krækti alls í fjögur stig í Lengjubikarnum en eini sigurleikurinn kom á móti Ægi. Leikur liðsins batnaði þó eftir því sem líða tók á Lengjubikarinn og stuðningsmenn Hamars vona væntanlega að spilamennskan verði nógu góð í sumar þannig að þeir geti farið á leiki í haust án þess að þurfa að hafa áhyggjur af falldraugnum.

Styrkleikar: Grýluvöllur, heimavöllur Hamars, getur verið erfiður heim að sækja en liðið sigraði fimm leiki þar á síðustu leiktíð. Njarðvík og Reynir, sem enduðu í öðru og þriðja sæti í fyrra, töpuðu meðal annars bæði á Grýluvelli sem er kenndur við goshverinn Grýlu sem er í næsta nágrenni. Flestir leikmenn í liði Hamars eru á sama aldri og ef góð stemning næst upp gæti það hjálpað liðinu mikið í sumar.

Veikleikar: Miklar breytingar eru á liði Hamars annað árið í röð og spurningin er hvernig liðinu tekst að bregðast við því. Lykilmenn hafa horfið á braut og óvíst er hvernig gengur að fylla skarðið sem þeir skyldu eftir sig. Útivallarárangur Hamars verður einnig að batna í sumar ef liðið ætlar sér stærri hluti en í fyrra komu einungis átta stig í hús á útivöllum.

Þjálfari: Jón Aðalsteinn Kristjánsson (Fæddur 1977):

Jón Aðalsteinn Kristjánsson þjálfar Hamar annað árið i röð. Jón Aðalsteinn byrjaði nokkuð ungur að þjálfa ÍH í þriðju deildinni. Árið 2006 var hann aðstoðarþjálfari hjá Aftureldingu auk þess sem hann þjálfaði annan flokk félagsins.

Í kjölfarið stýrði hann Skallagrími í eitt ár áður en hann þjálfaði annan flokk Fram við góðan orðstír árið 2008. Eftir það tók hann síðan við Hamri þar sem hann náði að halda liðinu uppi í fyrra.


Lykilmenn: Ágúst Örlaugur Magnússon, Marteinn Sindri Svavarsson, Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson.

Fyrstu þrír leikir sumarsins: Völsungur (heima), Reynir S. (úti), ÍH (heima)


Komnir:
Alexandre Tselichtchev frá Breiðablik
Arnar Þórarinsson frá Ými
Axel Ingi Magnússon frá Fylki
Björn Ásgeir Björgvinsson frá Ægi
Haraldur Árni Hróðmarsson frá Þrótti
Hartmann Antonsson frá Selfossi
Leifur Bjarki Erlendsson frá Val
Pétur Kjartan Kristinsson frá Fjarðabyggð
Ragnar Valberg Sigurjónsson frá Fram
Sveinn Ingi Einarsson frá Val
Vilhjálmur Þór Vilhjálmsson frá Aftureldingu

Farnir:
Ellert Finnbogi Eiríksson í Val
Erling Reynisson í KV
Hákon Andri Víkingsson í Þrótt
Hlynur Kárason í Ægi
Ingþór Theódór Guðmundsson í KB
Jón Kári Ívarsson í Hvöt
Kjartan Sigurðsson í Selfoss
Kristinn Ingi Halldórsson í Fram
Milos Milojevic í Víking R.
Ómar Ingi Guðmundsson í KFK
Sölvi Örn Sölvason hættur


Spá fyrirliða og þjálfara:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ?
11. Hamar 50 stig
12. KV 35 stig
banner
banner
banner