Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 04. apríl 2012 12:30
Magnús Már Einarsson
Skallagrímur ekki með í þriðju deildinni í sumar
Fimmtán ár síðan liðið lék í efstu deild
Skallagrímsmenn fagna marki á Skallagrímsvelli.
Skallagrímsmenn fagna marki á Skallagrímsvelli.
Mynd: Vilhjálmur Siggeirsson
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Skallagrímur frá Borgarnesi mun ekki senda lið til keppni í meistaraflokki karla í sumar í fyrsta skipti síðan árið 1968. Einungis fimmtán ár eru síðan Skallagrímur lék í efstu deild en nú nær liðið ekki að manna lið fyrir sumarið.

,,Þetta var mjög erfitt. Við skoðuðum þetta frá öllum hliðum og skoðuðum samstarf við önnur félög en það gekk ekki upp og þetta varð niðurstaðan," sagði Kristmar Jóhann Ólafsson formaður knattspyrnudeildar Skallagríms við Fótbolta.net í dag.

,,Það vantar mannskap og við hefðum orðið að fá nánast alla leikmenn annarsstaðar frá. Við erum bara með örfáa stráka hérna og það er lítið að koma upp."

Borgnesingar ætla að reyna að efla starfið í yngri flokkum sínum ennþá frekar og þeir vonast eftir að geta sent meistaraflokkslið aftur til leiks á næstu árum.

,,Við erum ekki búnir að leggja meistaraflokkinn niður. Í ljósi þeirra aðstæðna að það vanar mannskap þá höfum við ákveðið að vera ekki með í ár og þetta er eitthvað sem við munum endurskoða á næsta ári."

,,Við ætlum að leggja meiri pening í yngri flokkana í staðinn og setja mikið púður í það. Við ætlum að reyna að styrkja þá með sérþjálfun og erum að setja upp áætlun með það. Vonandi skilar það okkur einhverjum leikmönnum á næstu 2-3 árum þannig að það verði hægt að byggja þetta upp á heimamönnum."

Borgnesingar léku í úrvalsdeildinni árið 1997 eftir ótrúlegan uppgang sem byrjaði þegar liðið lék í fjórðu efstu deild árið 1990.

Skallagrímur féll á fyrsta ári sínu í úrvalsdeildinni og í kjölfarið tóku við erfiðir tímar sem enduðu á því að liðið féll aftur niður í þriðju og neðstu deild árið 2002. Skallagrímur hefur leikið í þriðju deildinni síðan þá en nú er ljóst að liðið verður ekki með í sumar.

Skallagrímur átti að leika í C-riðlinum í þriðju deildinni í sumar með Létti, Kára, Hvíta riddaranum, FFR, Víði, Grundarfirði og Þrótti Vogum en óljóst er hvort að annað félag taki sæti Borgnesinga eða ekki.

Sjá einnig:
Tímavélin: Borgnesingar fóru upp og niður allar deildir
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner