fim 12. október 2017 13:14
Magnús Már Einarsson
Óli Guðbjörns áfram með Stjörnuna (Staðfest)
Ólafur Þór Guðbjörnsson.
Ólafur Þór Guðbjörnsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjarnan hefur gengið frá nýjum tveggja ára samning við Ólaf Þór Guðbjörnsson þjálfara meistaraflokks kvenna. Sport.is greinir frá þessu.

Tímabilið er ennþá í gangi hjá Stjörnunni eftir að liðið komst áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar í gær. Stjarnan endaði í 5. sæti í Pepsi-deildinni í sumar og tapaði í framlengdum bikarúrslitaleik gegn ÍBV.

Ólafur hefur stýrt Stjörnunni síðan haustið 2013 en hann verður áfram við stjórnvölinn næstu tvö árin.

„Það er okkur mikið ánægjuefni að hafa tryggt okkur starfskrafta Ólafs Þórs næstu tvö árin,“ segir Einar Páll Tamimi, formaður meistaraflokksráðs kvenna.

„Þar til í ár hefur Stjarnan unnið annað hvort Íslandsmeistaratitil eða bikarmeistaratitil, eða báða titla, á hverju ári sem Ólafur Þór hefur þjálfað liðið og í ár varð Stjarnan fyrst íslenskra liða til að komast í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir núverandi fyrirkomulagi."

„Þá hefur hann hlúð vel að ungum og efnilegum leikmönnum sem leika munu lykilhlutverk í Stjörnuliðinu á komandi árum."

„Stjarnan stefnir að sjálfsögðu að því að endurheimta alla titla í Garðabæinn og það er gott til þess að vita að við höfum tryggt að rétti skipstjórinn haldi um stýrið á þeirri siglingu."

Athugasemdir
banner
banner
banner