Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
banner
   fös 20. október 2017 15:14
Elvar Geir Magnússon
Richarlison segir frá því að byssu var beint á andlit hans
Richarlison fer frábærlega af stað í ensku úrvalsdeildinni.
Richarlison fer frábærlega af stað í ensku úrvalsdeildinni.
Mynd: Getty Images
Með fjölskyldu sinni í Brasilíu.
Með fjölskyldu sinni í Brasilíu.
Mynd: Instagram
„Ég man þegar ég var að alast upp í Brasilíu, náungi beindi byssu að andliti mínu því hann hélt að ég væri eiturlyfjasali sem væri að selja á hans svæði. Svona var líf mitt," segir Richarlison, leikmaður Watford, í viðtali við Telegraph.

Richarlison gekk í raðir Watford í sumar og fer Brassinn frábærlega af stað í ensku úrvalsdeildinni.

„Ég sá eiturlyf fyrir framan mig á hverjum degi og heyrði reglulega byssuhvelli. Við áttum heima í litlu húsi en það var bakgarður þar sem fólk var að fela eiturlyf áður en þau voru seld. Sumir af vinum mínum frá þessum tíma eru í fangelsi núna."

„Það var allt til staðar svo ég færi að selja eiturlyf en þjálfararnir mínir voru lögreglumenn. Þeir vissu hvaðan ég væri og gáfu mér ráðleggingar til að halda mér á beinu brautinni."

Þegar Richarlison var sjö ára gamall þá skildu leiðir foreldra hans. Öll systkinin fóru með móðurinni en hann bjó með föðurnum.

„Ástæðan var sú að hann var aðilinn sem ég spilaði fótbolta með og horfði á leiki. Ég vissi að mamma myndi ekki fara með mig á fótboltaleiki. Ég var ungur en ekki vitlaus!" segir Richarlison sem ólst upp við mikla fátækt.

Til að reyna að vinna inn pening fyrir fjölskylduna fór hann að selja ís og heimatilbúið súkkulaði. Fótboltadraumarnir hrundu skyndilega þegar hann var sextán ára og félögin Avai og Figueirense höfnuðu honum.

„Ég hugsaði um að gefast upp og hætta í fótbolta. En fólkið frá bænum þar sem ég bjó sögðu mér að halda áfram því það sá hæfileikana," segir Richarlison sem fékk svo tækifæri í akademíu America-MG í Belo Horizonte.

Síðan þá hefur uppgangurinn verið verulega hraður. Hann hjálpaði America-MG að komast í efstu deild í Brasilíu og Fluminese fékk hann yfir til sín.

Í sumar var hann svo á leið til Amsterdam að skrifa undir samning við Ajax þegar síminn hringdi. Það var Marco Silva, stjóri Watford, sem sagði honum að hann vildi fá hann.

„Að spila í ensku úrvalsdeildinni var draumur minn. Ég horfði mikið á enska boltann í sjónvarpinu og Cristiano Ronaldo var hetjan mín. Ég þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um þegar ég fékk þetta tækifæri," segir Richarlison.

„Ég grét næstum eftir fyrsta markið mitt (gegn Bournemouth). Það var mjög tilfinningaríkt. Stuðningsmennirnir eru farnir að syngja um mig. Þetta er í fyrsta sinn sem ég heyri söng sem er tileinkaður mér. Þetta er ómetanlegt."
Athugasemdir
banner
banner