banner
   þri 13. febrúar 2018 16:30
Elvar Geir Magnússon
Kluivert gefur enskum félögum undir fótinn
Mynd: Getty Images
Hinn 18 ára Justin Kluivert heldur áfram að heilla með frammistöðu sinni fyrir Ajax.

Sóknarleikmaðurinn ungi er kominn með sex mörk og fjórar stoðsendingar í hollensku úrvalsdeildinni.

Talað er um að Manchester United hafi áhuga á vængmanninum en athygli vakti eftir úrslitaleik Evrópudeildarinnar í fyrra þegar Jose Mourinho átti spjall við leikmanninn unga.

Kluivert reiknar með að vera áfram í Hollandi en neitar því ekki að hann sé tilbúinn að fara í stórt lið í enska boltanum í framtíðinni.

„Ef þú færð spennandi tilboð þá er aldrei að vita. England heillar mig. Arsenal, Tottenham, Chelsea og Manchester United eru flott félög sem ég gæti séð mig spila fyrir," segir Justin Kluivert.

Justin Kluivert er sonur Patrick Kluivert sem var öflugur sóknarmaður Barcelona

„Ég væri til í að fara til Barcelona frekar en Real Madrid. Barcelona er í hjarta mínu en hvernig getur maður sagt nei ef Real Madrid vill fá þig?"

Samningur Kluivert við Ajax rennur út í júní 2019 og viðræður hafa farið af stað um nýjan samning. Marc Overmars, yfirmaður fótboltamála hjá Ajax, stýrir viðræðunum fyrir hönd félagsins.

„Ég er að ræða um samning við umboðsmann hans, Mino Raiola, og ég er vongóður um að samkomulag náist. Það er mikill áhugi á mörgum af leikmönnum okkar," segir Overmars.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner