fim 17. maí 2018 19:32
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Wenger sér mest eftir því að hafa misst af Ronaldo
Magnaður fótboltamaður.
Magnaður fótboltamaður.
Mynd: Getty Images
Wenger er hættur með Arsenal.
Wenger er hættur með Arsenal.
Mynd: Getty Images
Þessi er líka mjög góður í fótbolta.
Þessi er líka mjög góður í fótbolta.
Mynd: Getty Images
Spáðu í því að hafa misst af leikmanni eins og Cristiano Ronaldo. Arsene Wenger spáir líklega í því á hverjum einasta degi, hann hefur viðurkennt að það sé mesta eftirsjáin á knattspyrnustjóraferli sínum.

Wenger hefur misst af mörgum frábærum knattspyrnumönnum á þeim 22 árum sem hann hefur stýrt Arsenal en hann segir að Ronaldo sé sá sem hann sjái mest á eftir.

Arsenal reyndi að fá Ronaldo frá Sporting Lissabon árið 2003 en viðræður drógust á langinn og endaði sá portúgalski á því að skrifa undir samning við Manchester United. Fræg er sagan af því að þegar Ronaldo fór illa með reynslumikla menn United í æfingaleik. Eftir leik hópuðust leikmenn Man Utd að Sir Alex Ferguson og báðu hann um að kaupa þennan magnaða leikmann.

Ronaldo var þarna aðeins 18 ára gamall. Hann fyllt í skarðið sem David Beckham skildi eftir og gott betur.

En hvað hefði gerst ef hann hefði skrifað undir hjá Arsenal frekar en hjá Manchester United. Hefði Arsenal unnið ensku úrvalsdeildina oftar eða unnið Meistaradeildina? Hefði Ronaldo orðið sá leikmaður sem hann er í dag?

Þetta eru spurningar sem við munum aldrei fá svör við.

„Ronaldo kom til okkar ásamt móður sinni og við vorum nálægt því að ganga frá félagskiptum á honum. Svo kom Manchester United inn í dæmið og þeir höfðu Carlos Queiroz á þessum tíma sem aðstoðarstjóra sinn. United spilaði gegn Sporting Lissabon og Ronaldo var magnaður og þeir gengu frá kaupum á honum," segir Wenger við heimasíðu Arsenal.

„Það er rétt hægt að ímynda sér hvernig það hefði verið að hafa Ronaldo og Thierry Henry saman. Seinna hafði Man Utd Ronaldo, Rooney og Van Nistelrooy saman, þeir höfðu stórkostlegt fótboltalið, og Giggs og Scholes saman."

„Ef Ronaldo hefði komið, þá hefði það klárlega breytt sögu minni hjá félaginu."

Man Utd keypti Ronaldo á 12 milljónir punda og gerði hann að dýrasta táningnum í fótboltanum á þeim tímapunkti. Wenger segir að Arsenal hafi ekki haft efni á að jafna tilboðið.

Sjá einnig:
Kallar eftir því að Ronaldo bjargi tímabilinu fyrir stuðningsmenn Man Utd

„Veit ekki hvort Messi hafði áhuga"
Ronaldo er í dag einn besti fótboltamaður í heimi, einn besti fótboltamaður sögunnar. Fótboltaunnendur hafa lengi deilt um það hvort sé betri, Ronaldo eða Lionel Messi?

Wenger segist líka hafa reynt að fá Messi en það hafi ekki farið eins langt og með Ronaldo.

Wenger tókst að fá Cesc Fabregas frá Barcelona og reyndi hann í leiðinni að fá Messi og Gerard Pique. Það gekk aðeins upp að fá Fabregas, sem reyndist frábær leikmaður fyrir Arsenal.

„Það gekk ekki upp með (Gerard) Pique og Messi vegna umboðsmanna. Það var eitthvað tengt Nike og þeir vildu að Pique færi til Manchester United. Með Messi, Barcelona vildi auðvitað ekki missa hann og gerði honum gott tilboð."

„Ég veit ekki hvort Messi hafði áhuga, Barcelona stoppaði það mál í fæðingu."

Wenger er hættur með Arsenal og nú stendur yfir leit að nýjum þjálfara. Mikel Arteta, fyrrum leikmaður liðsins, er sagður líklegastur til að taka við starfinu af Wenger, eins og er.
Athugasemdir
banner
banner
banner