Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 17. maí 2018 23:02
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Kluivert hraunar yfir Ajax - Reyndu að selja hann til Tottenham
Mun ekki framlengja samning sinn
Justin Kluivert.
Justin Kluivert.
Mynd: Getty Images
Raiola er umboðsmaður Kluivert.
Raiola er umboðsmaður Kluivert.
Mynd: Getty Images
Justin Kluivert gæti verið á förum frá Ajax í sumar eftir að hafa gagnrýnt vinnubrögð félagsins harðlega.

Hinn 19 ára gamli Kluivert er einn heitasti bitinn á markaðnum eftir að hafa staðið sig vel með Ajax í vetur. Hann hefur vakið áhuga, meðal annars hjá Manchester United.

Þrátt fyrir þennan mikla áhuga hefur Kluivert verið í viðræðum um nýjan samning við Ajax. Þær viðræður munu ekki fara lengra, hann er ekki að fara að endurnýja samninginn.

Hann segir að ástæðan séu menn sem vinna fyrir hollenska félagið og vinnubrögð þeirra.

Edwin van der Sar, fyrrum markvörður Manchester United, vinnur í dag sem framkvæmdastjóri Ajax. Hann fór í sjónvarpsviðtal á dögunum þar sem hann gaf til kynna að Mino Raiola, hinn þekkti umboðsmaður Kluivert, væri að reyna að sannfæra Kluivert um að fara frá Ajax. Kluivert hefur í kjölfarið fengið ljót skilaboð þar sem hann hefur verið sakaður um græðgi og margt annað.

Kluivert hefur nú gefið út að hann muni ekki framlengja samning sinn. Hann segir að Ajax sé aðeins að reyna að framlengja við sig til þess að geta grætt peninga á sér í framtíðinni, félagið sé bara að hugsa um peninga, ekki leikmanninn.

„Ég mun ekki framlengja samning minn við Ajax, það hefur of mikið gerst," sagði Kluivert við Volkstrant í Hollandi. „Andrúmsloftið hjá liðinu hefur farið minnkandi og sjálfstraustið er minna en áður."

„Félagið reyndi einnig að selja mig til Tottenham án þess að ég hafði einhverja hugmynd um það. Ég heyrði um það á síðustu stundu. Það segir ekkert um Ajax, heldur um fólkið sem starfar hjá félaginu."

„Þeir sem starfa hjá félaginu gera það sem þeir vilja."

„Þjálfaranum líður ekki vel"
Kluivert hélt áfram gagnrýni sinni:

„Ajax skiptir of auðveldlega um þjálfara, þeir fá ekki tækifæri. Þú tekur eftir því að þjálfaranum líður ekki vel, það var eins með Marcel Keizer," sagði strákurinn ungi.

„Liðið var mjög samheldið í byrjun tímabilsins. Það er ekki lengur þannig núna."

Samningur Kluivert við Ajax rennur út 2019. Því má gera fastlega ráð fyrir því að hann sé á förum í sumar. Kluivert er ekki fyrsti leikmaðurinn sem gagnrýnir yfirmenn hjá Ajax. Markvörðurinn Andre Onana gerði það líka.



Athugasemdir
banner