Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   fös 18. maí 2018 07:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Jón Daði fær nýjan liðsfélaga - Geta mæst á Laugardalsvelli
Andy Yiadom kemur frá Barnsley þar sem hann var fyrirliði.
Andy Yiadom kemur frá Barnsley þar sem hann var fyrirliði.
Mynd: Getty Images
Hjá Reading eru menn ekki lengi að demba sér í hlutina. Tímabilið er nýbúið hjá félaginu og það er strax kominn nýr leikmaður.

Félagið er búið að semja við Andy Yiadom, fyrirliða Barnsley. Hann kemur til félagins og gerir fjögurra ára samning.

Yiadom verður formlega leikmaður Reading þegar samningur hans við Barnsley rennur út í lok júní.

Barnsley féll úr Championship-deildinni á tímabilinu sem var að líða en Yiadom verður áfram í þeirri deild, með Reading. Yiadom hafði verið hjá Barnsley frá 2016 eftir að hafa áður verið á mála hjá Hayes & Yeading, Braintree og Barnet.

Yiadom er 26 ára gamall hægri bakvörður. Hann á tvo landsleiki að baki fyrir Gana.

Hann er fyrsti leikmaðurinn sem Paul Clement fær til Reading. Clement tók við Reading á leiktíðinni sem var að klárast og náði að koma í veg fyrir það að liðið félli úr Championship-deildinni. Clement segist hafa lengi fylgst með Yiadom.

Með Reading leikur Jón Daði Böðvarsson. Hann var markahæsti leikmaður liðsins á tímabilinu með tíu mörk.

Jón Daði og Yiadom gætu hist þegar Ísland og Gana leika vináttulandsleik þann 7. júní næstkomandi. Leikurinn verður á Laugardalsvelli.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner