fös 18. maí 2018 10:10
Elvar Geir Magnússon
Upphitun - Bikarúrslitaleikur Chelsea og Man Utd á morgun
Leikurinn á morgun laugardag klukkan 16:15
Conte mætir Mourinho á Wembley.
Conte mætir Mourinho á Wembley.
Mynd: Getty Images
Olivier Giroud.
Olivier Giroud.
Mynd: Getty Images
Romelu Lukaku.
Romelu Lukaku.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Hjá Chelsea og Manchester United eru menn meðvitaðir um að ekkert annað en sigur kemur til greina í úrslitaleik FA-bikarsins til að klára tímabil sem hefur ekki staðið undir væntingum.

LAUGARDAGUR
16:15 Chelsea - Man Utd (Wembley)

Reyndar getur United haldið því fram að það sé mikil bæting að enda í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir erfið ár síðan Sir Alex Ferguson hætti.

Hjá Chelsea hefur annað tímabil Antonio Conte ekki gengið eftir áætlun. Liðið kastaði frá sér toppsæti síns riðils í Meistaradeildinni og tapaði fyrir Barcelona í fyrstu viðureign útsláttarkeppninnar.

Chelsea tapaði gegn Arsenal í undanúrslitum deildabikarins og endaði í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 23 stigum færra en Englandsmeistaratímabilið 2016-17.

Það búast langflestir við því að Roman Abramovich taki fram stígvélið á komandi vikum, sama þó Chelsea vinni á laugardaginn.

Chelsea tapaði fyrir Arsenal í bikarúrslitaleiknum fyrir Ari en fjórir af sjö sigrum liðsins í keppninni hafa komið á síðustu ellefu árum, síðast vann liðið FA bikarinn 2012.

Gengi Chelsea í FA bikarnum að undanförnu: JSSSSS
Gengi Chelsea í öllum keppnum að undanförnu: SSSSJT

Jose Mourinho og Antonio Conte hafa verið að hnýta í hvorn annan utan vallar en við erum jafnvel að fara inn í lokakaflann á þeim deilum.

Mourinho er klárlega meira en lítið til í að hamra síðasta naglanum í dvöl Conte hjá Chelsea með því að leggja hann á morgun.

Manchester United endaði 19 stigum á eftir Manchester City í deildinni og það er ekki tilefni til að fagna. Mourinho þarf á bikarnum að halda til að hafa stuðningmenn við bakið á sér fyrir sumargluggann sem ætti að vera tíðindamikill á Old Trafford.

Síðast vann United bikarinn fyrir tveimur árum, 2-1 gegn Crystal Palace í úrslitum. Eins og frægt er reyndist það lokaleikur United undir stjórn Louis van Gaal.

Tímabil United hófst með tapi gegn Real Madrid í Ofurbikar Evrópu en síðan þá hafa fylgt 55 leikir og lýkur tímabilinu um helgina. Það er erfitt að meta hvort tímabil liðsins hafi verið vel heppnað eða ekki.

Þrjú töp gegn nýliðum og markalaust jafntefli gegn West Ham voru úrslit sem pirruðu stuðningsmenn United mikið. Annar bikarmeistaratitillinn á þremur árum yrði frábær leið fyrir Mourinho til að sanna það að hann er enn algjör sigurvegari. Þó leikstíll hans hafi fengið mikla gagnrýni yfir tímabilið.

United hefur unnið alla af topp sex andstæðingum sínum á þessu tímabili, þar á meðal Chelsea í síðasta deildarviðureign liðanna.

Gengi Man Utd í FA bikarnum að undanförnu: TSSSSS
Gengi Man Utd í öllum keppnum að undanförnu: SSSTJS

Í aðdraganda leiksins hefur verið mikið rætt um kapphlaup Romelu Lukaku um að vera klár í leikinn eftir ökklameiðsli. United hefur skorað eitt mark í þeim þremur leikjum sem Belginn hefur misst af og enginn efast um mikilvægi hans lengur.

Talið er að Lukaku verði klár í slaginn en Anthony Martial er tæpur vegna hnémeiðsla.

Þrátt fyrir að Sergio Romero hafi byrjað fjóra af leikjum United á leiðinni í úrslitaleikinn má reikna með því að leikmaður ársins hjá félaginu, David de Gea, standi í rammanum.

Stærsta spurningamerkið í liðsvali Antonio Conte snýr að sókninni þar sem Olivier Giroud hefur spilað mun betur en Alvaro Morata síðan hann mætti um mitt tímabil.

Spurning er hvort Chelsea muni spila með þrjá í sóknarlínunni eða bæta við manni á miðjuna.

Danny Drinkwater og David Luiz eru báðir á meiðslalistanum.

Líklegt byrjunarlið Chelsea:
Courtois; Rudiger, Christensen, Azpilicueta; Moses, Kante, Fabregas, Alonso; Hazard, Willian; Giroud

Líklegt byrjunarlið Man Utd:
De Gea; Valencia, Bailly, Rojo, Young; Herrera, Matic, Pogba; Sanchez, Lukaku, Mata


Athugasemdir
banner
banner