mið 18. júlí 2018 09:50
Elvar Geir Magnússon
Þrándheimi
Söderlund: Valur lið sem við venjulega vinnum 3-0
Söderlund í landsleik með Noregi á Laugardalsvelli fyrir sex árum.
Söderlund í landsleik með Noregi á Laugardalsvelli fyrir sex árum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er leikdagur hér í Þrándheimi þar sem Íslandsmeistarar Vals eiga leik við Noregsmeistarana í Rosenborg í seinni viðureign liðanna í forkeppni Meistaradeildar Evrópu.

Eftir sólríka daga er skýjað þennan daginn að íslenskum sið og vonandi er það fyrirboði fyrir leikinn í kvöld.

Leikurinn hefst 17:45 að íslenskum tíma, 19:45 að staðartíma, og verður í beinni textalýsingu frá Þrándheimi hér á Fótbolta.net.

Valur vann fyrri leikinn 1-0 en Alexander Söderlund, sóknarmaður Rosenborg, var mjög undrandi á þeim úrslitum enda telur hann að norska liðið sé mikið mun betra en það íslenska.

„Það er ótrúlegt að við höfum tapað á Íslandi. Ég er ekki að vera 'cocky' eða segja að við séum svo rosalega góðir en þetta ætti ekki að vera nein samkeppni fyrir okkur. Venjulega er Valur lið sem við eigum að vinna svona 3-0 og ég held að við munum gera það," sagði Söderlund við norska fjölmiðla.

Söderlund kom inn sem varamaður í fyrri leiknum en hann lék hér á landi með FH í Pepsi-deildinni 2009.

Kåre Ingebrigtsen þjálfari Rosenborg hefur stýrt liðinu til norska meistaratitilsins síðustu þrjú ár. Það er þó pressa á honum að ná árangri í Evrópu og sú pressa er áberandi meðal stuðningsmanna liðsins á samskiptamiðlum. Krafa er gerð á að verkefnið í kvöld verði klárað.

Í samtali við norska fjölmiðla segir hann að Evrópukeppnin sé orðin þannig að þú getir ekki farið á einhvern völl og gert ráð fyrir þremur stigum. Þá bendir hann á að þó illa myndi fara hjá hans liði í kvöld yrði það enn með í Evrópukeppni, færast niður í forkeppni Evrópudeildarinnar.

Fótbolti.net kíkti á æfingasvæði Rosenborg í gær og ræddi þar við Matthías Vilhjálmsson en það viðtal má sjá hér.

„Valsmenn voru gríðarlega agaðir og skipulagðir og sköpuðu eiginlega hættulegri færi en við. Það var svekkjandi fyrir okkur. Við þurfum að gera mun betur," sagði Matthías meðal annars.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner