Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
banner
   fim 19. júlí 2018 11:30
Ívan Guðjón Baldursson
Atletico bíður eftir leyfi frá FIFA til að staðfesta komu Martins
Mynd: Getty Images
Atletico Madrid hefur komist að samkomulagi við Gelson Martins en þorir ekki að ganga frá félagaskiptunum alveg strax.

Það er vegna þess að Martins, 23 ára landsliðsmaður Portúgal, kemur frá Sporting eftir að hafa reynt að rifta samningi sínum við félagið.

Eins og glöggum lesendum er kunnugt var mikið uppþot innan herbúða Sporting á síðasta tímabili, sem varð til þess að grímuklæddir stuðningsmenn mættu á æfingasvæðið og réðust að leikmönnum.

Martins er einn af þeim sem vildu hætta að spila fyrir félagið í kjölfarið af árásinni en Sporting vill ekki hleypa samningsbundnum leikmönnum sínum frítt frá félaginu.

Allar líkur eru á því að Atletico þurfi að greiða eitthvað fyrir Martins. Sporting vill 45 milljónir evra en Atletico er ekki talið vera reiðubúið til að eyða svo hárri upphæð í kaupin.

Málið flækist því Sporting má ekki neyða Martins til að vera áfram í Lissabon og því þarf FIFA að meta hversu háa upphæð Sporting á skilið að fá fyrir leikmanninn. Atletico vill bíða eftir ákvörðun FIFA áður en næsta skref er tekið.

Martins á 19 A-landsleiki að baki fyrir Portúgal og gerði 13 mörk fyrir Sporting á síðasta tímabili. Hann getur spilað á báðum köntunum en er yfirleitt notaður hægra megin.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner