Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 19. júlí 2018 19:06
Hafliði Breiðfjörð
Rúnar Páll: Þeir voru miklu öflugri en í fyrri leiknum
Rúnar Páll var ánægður að Stjarnan fær FC Kaupmannahöfn í heimsókn í næstu viku.
Rúnar Páll var ánægður að Stjarnan fær FC Kaupmannahöfn í heimsókn í næstu viku.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
„Þetta var ágætis frammistaða hjá okkar mönnum. Þeir voru mikið meira með boltann og við vörðumst vel í fyrri hálfleik," sagði Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar eftir 1-0 tap ytra gegn Nomme Kalju í Evrópudeild UEFA í kvöld en Stjarnan vann þá samanlagt 1-3 eftir 0-3 sigur heima. Haraldur Björnsson markvörður Stjörnunnar þurfti oft að taka á sínum stóra sínum.

„Halli þurfti að grípa nokkrum sinnum vel inní en við vorum ánægðir að koma inn í hálfleik í stöðunni 0-0. Það gaf okkur byr undir báða vængi því þeir voru miklu öflugri heldur en í fyrri leiknum," sagði Rúnar en leikurinn breyttist svo eftir það.

„Við tókum svolítið yfir leikinn í seinni hálfleik frá 60.- 87. mínútu þegar þeir skoruðu þetta mark. Púlsinn fór aftur upp þá," sagði Rúnar en aðspurður hvort það hafi ekki verið óþarfi svona seint í leiknum?

„Jú það var seint í leiknum en maður verður bara stressaður yfir þessu. Það er bara þannig en við náðum svo að sigla þessu. Það er sterkt fyrir okkur að klára þetta og komast áfram."

Eins og Rúnar sagði þurfti Stjörnumenn að verjast allan fyrri hálfleikinn enda kraftmiklir heimamenn að sækja á þá. En var það uppleggið að verjast meira núna eða sóttu Nomme Kalju svona stíft á þá?

„Við sáum styrkleika þeirra heima í Garðabænum og hvað þeir voru að reyna og ætluðum að bregðast við svo við fengjum ekki of mikið af fyrirgjöfum frá bakvörðunum. Við ákváðum því að liggja meira til baka og spila aðeins betri vörn. Það gekk nánast eftir allan leikinn nema í blálokin. En það var mikilvægt að halda 0-0 eins lengi og hægt var."

Samanlagður 1-3 sigur Stjörnunnar fleytir þeim því áfram í næstu umferð keppninnar þar sem þeir mæta FC Kaupmannahöfn ef þeim tekst að leggja KuPS af velli í kvöld.

„Það var mjög sterkt að vinna þetta lið. Þeir hafa ekki tapað í fyrstu umferð keppninnar síðastliðin sjö ár svo þeir eru sterkir. Við vorum hrikalega ánægðir með fyrri leikinn og góð spilamennska þar gerir það að verkum að við förum áfram. Það verður gaman að mæta FCK á heimavelli næsta fimtudag."

„Við teljum okkur eiga ágætis möguleika á móti þeim. Það er ekkert grín fyrir þá að koma á Samsungvöllinn. Við byrjum á því og sjáum hvernig það gengur."

Athugasemdir
banner
banner
banner