sun 12. ágúst 2018 12:30
Ívan Guðjón Baldursson
Sevilla hótar að mæta ekki til leiks gegn Barcelona í kvöld
Coutinho fær portúgalskt vegabréf í dag.
Coutinho fær portúgalskt vegabréf í dag.
Mynd: Getty Images
Stuðningur spænska knattspyrnusambandsins við Barcelona þykir vera orðinn ansi skrýtinn og gæti Sevilla sleppt því að mæta til leiks í úrslitaleik ofurbikarsins í kvöld.

Knattspyrnusambandið er þegar búið að breyta tveimur reglum fyrir úrslitaleikinn og er stjórn Sevilla langt frá því að vera ánægð með breytingarnar.

Spænski ofurbikarinn hefur alltaf verið spilaður yfir tvo leiki, heima og úti, en í ár verður spilaður einn leikur á hlutlausum velli. Þessari reglu var breytt svo Börsungar gætu náð að spila afar mikilvægan æfingaleik við Boca Juniors á miðvikudaginn.

Stór stuðningsmannahópur Sevilla gaf frá sér yfirlýsingu vegna málsins og ætlar ekki að mæta á úrslitaleikinn.

Nú gæti það þó gerst að leikmenn mæti ekki heldur, en það er vegna reglubreytingar sem var staðfest í gærkvöldi, 24 tímum fyrir upphafsflautið.

Undir venjulegum kringumstæðum mega spænsk lið aðeins vera með þrjá leikmenn í hóp sem eru ekki með evrópskt ríkisfang en knattspyrnusambandið breytti reglunni þannig að engar takmarkanir eru settar á hverjir megi vera í hóp.

„Sevilla furðar sig á yfirlýsingu spænska knattspyrnusambandsins 24 tímum fyrir ofurbikarinn. Þar segir að liðin megi nota eins marga útlendinga og þau vilji í úrslitaleiknum þrátt fyrir skýrar reglur um að aðeins þrír leikmenn utan Evrópu megi vera í hóp," stendur í yfirlýsingu frá Sevilla.

„Lögfræðiteymi félagsins er að skoða málið og er mögulegt að liðið mæti ekki til leiks ef Barcelona er með fleiri en þrjá leikmenn í hóp sem eru skráðir utan Evrópu."

Arthur, Malcom og Arturo Vidal eru ekki með evrópskt ríkisfang en spænskir fjölmiðlar segja Philippe Coutinho fá portúgalskt vegabréf í dag, nokkrum klukkutímum fyrir upphafsflautið.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner