sun 12. ágúst 2018 13:30
Ívan Guðjón Baldursson
Forseti Sevilla skilur ekkert í Batshuayi
Mynd: Getty Images
Chelsea ákvað að lána belgíska sóknarmanninn Michy Batshuayi til Spánar og fékk hann sjálfur að velja á milli Valencia og Sevilla.

Valencia endaði í fjórða sæti spænsku deildarinnar og náði þar með meistaradeildarsæti, en Sevilla endaði í því sjöunda og þarf því að fara í gegnum undankeppni Evrópudeildarinnar.

Batshuayi valdi Valencia framyfir Sevilla til að fá tækifæri til að sanna sig á stærsta sviðinu, Meistaradeildinni.

Pepe Castro, forseti Sevilla, gaf lítið fyrir þau rök sóknarmannsins og sagði ákvörðunina vera heimskulega.

„Hann vill spila í Meistaradeildinni... Af hverju myndi hann frekar vilja spila fjóra meistaradeildarleiki heldur en 30 evrópudeildarleiki?" sagði Castro.

„Auk þess að spila meira í Evrópudeildinni myndi hann skora fleiri mörk."

Batshuayi bjóst líklega ekki við þessum ummælum frá Castro en svaraði fagmannlega fyrir sig.

„Ég vil ekki svara þessu. Ég kom til Valencia til að spila meira en fjóra meistaradeildarleiki," sagði Belginn þegar hann var spurður út í ummælin á fréttamannafundi.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner