mið 15. ágúst 2018 23:00
Ívan Guðjón Baldursson
Eigandi Crystal Palace: Samningur Zaha fullkomnar sumarið
Mynd: Getty Images
Steve Parish, forseti Crystal Palace og einn eigenda þess, er hæstánægður með samningsframlengingu Wilfried Zaha.

Zaha varð launahæstur í liðinu þegar hann skrifaði undir nýjan samning og lítur Parish á hann sem andlit félagsins.

Roy Hodgson framlengdi nýlega samning sinn til 2020 og hafði Palace betur gegn Fulham í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Zaha skoraði annað markanna í 2-0 sigri.

Félagið krækti í menn á borð við Max Meyer og Jordan Ayew í sumarglugganum og er Parish sérstaklega ánægður með að hafa náð að halda í Zaha, sem var sterklega orðaður við ýmis stórlið.

„Staðan er mjög góð hjá okkur, við áttum frábært sumar og fengum öfluga leikmenn til okkar. Nýr samningur fyrir Zaha fullkomnar sumarið," sagði Parish við vefsíðu Crystal Palace.

„Það er gott að þagga niður í sögusögnunum. Wilfried hefur hagað sér mjög vel þrátt fyrir alla orðrómana í sumar. Hann er sannur fagmaður."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner