Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   fös 17. ágúst 2018 11:00
Magnús Már Einarsson
Jói rýnir í úrslitaleikinn: Harka, barátta og læti
Breiðablik og Stjarnan mætst í úrslitum í kvöld.
Breiðablik og Stjarnan mætst í úrslitum í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Harpa Þorsteinsdóttir framherji Stjörnunnar.
Harpa Þorsteinsdóttir framherji Stjörnunnar.
Mynd: Fotbolti.net - Anna Þonn
Það verður hart barist í kvöld.
Það verður hart barist í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það er enginn smá leikur sem boðið er upp á í upphafi Menningarhelgarinnar. Stjarnan-Breiðablik í úrslitaleik Mjólkurbikars kvenna. Tveir risar í kvennaboltanum sem þekkja vel að leika til úrslita í Laugardalnum," segir Jóhann Kristinn Gunnarsson, sérfræðingur Fótbolta.net í Pepsi-deild kvenna.

Jói fylgist vel með gangi mála og Fótbolti.net fékk hann til að rýna í leik Breiðabliks og Stjörnunnar í úrslitaleik Mjólkurbikarsins klukkan 19:15 í kvöld.

Breiðablik - Stjarnan
Þó hvorugt liðið eigi titilinn að verja í ár þá voru Stjörnustelpur í úrslitaleiknum í fyrra og unnu titilinn árið þar áður. Breiðablik vann einmitt þennan bikar árið þar á undan.

Það má því segja að liðin og þjálfarar séu öllum hnútum kunnug á Laugardalsvellinum þegar þau mæta til leiks. Nokkrir leikmenn félaganna hafa tekið þátt í fleiri en einum og fleiri en tveimur bikarúrslitaleikjum og þekkja því vel hvað er framundan.

Stjarnan er nánast alveg út úr myndinni í baráttunni um íslandsmeistaratitilinn þetta árið og því má gera ráð fyrir því að þær selji sig ansi dýrt. Þær hafa leikmenn sem geta breytt leikjum á núlleinni og gæðin fram á við eru gríðarleg. Það er eiginlega óhugsandi að ímynda sér leikinn án þess að Stjarnan skori mark. Þær eru bara það öflugar sóknarlega. Harpa, Telma, Katrín, Þórdís og jafnvel Adda er farin að smyrja boltum undir slánna. Það er líka gríðarleg reynsla í þessu liði sem og þjálfaranum. Spurningin verður alltaf hvernig vörn og markvarsla Stjörnunnar verður í leiknum. Þær eru alltaf að fara að skora.

Breiðablik sér möguleikann á því að vinna tvo titla þetta árið. Eru í bullandi toppbaráttu í deildinni og ætla sér eflaust að taka bikarinn líka. Liðið er skipulagt, vel spilandi og sniðug blanda af ungum og efnilegum sem og eldri og reyndari leikmönnum. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að Breiðablik kemur til með að sakna Selmu og Andreu í leiknum sem eru komnar út í skóla. En reynslan í sumar hefur reyndar sýnt að Steini og Breiðablik ná að aðlagast vel breytingum vegna einhverra forfalla sem kunna að koma upp.

Breiðablik er eins og Stjarnan að því leitinu að þær skora mikið enda öflugar byssur frammi hjá þeim. Agla María og Berglind eru alvöru sóknargammar sem hræða öll lið. Liðið hefur líka verið öflugt varnarlega í sumar og er ekki að gefa mikil færi á sér. Spurning hvort þær nái að halda þeim dampi í þessum leik og standa af sér atlögur sóknarleiks Stjörnunnar.

Fyrir okkur áhorfendur vonumst við auðvitað alltaf eftir mörkum og miklu fjöri í leiknum. Jafnvel framlengingu og vítaspyrnukeppni til að halda spennunni sem lengst. Það er þó eitthvað sem segir mér að reynsluboltarnir Steini og Óli vilji nú ekki opna leikinn allt of mikið. Því gæti þetta farið rólega af stað þó barátta og kraftur sé í leiknum. Mörk breyta leikjum og eftir að Harpa kemur Stjörnunni yfir þá svara Blikar með marki frá Berglindi. Eftir það þá færist fjör í leikinn og fleiri mörk og allskonar atvik fylgja í kjölfarið. Best að spá ekkert af meiri nákvæmni í þetta skiptið. Þetta verður harka, barátta, læti og jafn leikur allt til enda.

Skora á alla unnendur knattspyrnu að leggja leið sína á völlinn og slá aðsóknarmetið á bikarúrslitaleik kvenna svo hraustlega að eftir verði tekið! Stelpurnar, liðin, félögin og kvennaknattspyrnan yfirhöfuð á það svo innilega skilið.
Athugasemdir
banner
banner
banner