Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   lau 18. ágúst 2018 11:12
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Klopp: Hver sá sem hugsar svona er fáviti
Jurgen Klopp.
Jurgen Klopp.
Mynd: Getty Images
Kevin De Bruyne er meiddur.
Kevin De Bruyne er meiddur.
Mynd: Getty Images
Manchester City vonast til þess að Kevin De Bruyne geti snúið aftur eftir hnémeiðsli innan þriggja mánaða. Þessi frábæri miðjumaður mun missa af mikilvægum leikjum í ensku úrvalsdeildinni og einnig leik eða leikjum gegn Íslandi í Þjóðadeildinni.

De Bruyne var besti leikmaður Manchester City þegar liðið varð Englandsmeistari í fyrra.

Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, telur að meiðsli De Bruyne muni ekki hafa áhrif á gengi Manchester City. Liverpool er talinn helsti keppinautur Man City í titilbaráttunni og var Klopp spurður út í meiðsli De Bruyne á Sky Sports, hvort þau komi til með að hjálpa Liverpool eitthvað.

„Hver sá sem hugsar svona er fáviti," sagði Klopp hreint út. „Ég er ekki þannig. Ég vil nýta tækifærið og senda honum batakveðjur."

„Ég elska þennan leikmann. Ég vildi fá hann þegar ég var hjá Dortmund og hann hjá Chelsea, en Jose (Mourinho) vildi ekki leyfa mér að fá hann."

„Þvílíkt tímabil sem hann átti, þvílíkt HM sem hann spilaði. Ég finn til með honum."

„Manchester City er að sjálfsögðu með möguleika. Þeir keyptu Riyad Mahrez og geta spilað honum í mörgum stöðum. Bernando Silva getur spilað dýpra á vellinum og þeir eru líka með Phil Foden og Ilkay Gundogan."

„Það þarf enginn að hafa áhyggjur af Manchester City og þeim gæðum sem liðið þeirra býr yfir."

„Við horfum ekki á önnur lið, við reynum bara að gera það besta úr okkar stöðu."

Liverpool og Manchester City byrjuðu bæði á sigri í ensku úrvalsdeildinni þetta tímabilið, Liverpool vann West Ham og Manchester City hafði betur gegn Arsenal. Um helgina spilar Man City við Huddersfield á útivelli og Liverpool mætir Crystal Palace, einnig á útivelli.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner