lau 18. ágúst 2018 14:40
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Mourinho ekki skemmt yfir nýjum heimildaþáttum um Man City
Jose Mourinho.
Jose Mourinho.
Mynd: Getty Images
Inn á efnisveitu Amazon, Amazon Prime, voru að koma heimildaþættir um Englandsmeistaratímabil Manchester City í fyrra. Þættirnir bera heitið "All or Nothing" og hægt er að þýða það yfir á íslensku sem "Allt eða Ekkert".

Framleiðsluteymi fylgdi lærisveinum Pep Guardiola eftir allt tímabilið, en Man City vann ensku úrvalsdeildina með metfjölda stiga.

Um átta þátta seríu er að ræða en skyggnst er á bak við tjöldin á þessu flotta tímabili hjá City. Áhorfendur fá að vita meira um þjálfaraaðferðir Pep Guardiola, hvernig hann vinnur sína vinnu og hvernig stemninginn var í kringum liðið.

Viðtökurnar hafa verið góðar en Jose Mourinho, stjóri nágrannana í Manchester United, er ekki skemmt.

Í öðrum þætti er sýnt frá sigri City á Old Trafford í desember síðastliðnum en í þáttunum er leiknum lýst sem: „Guardiola gegn Mourinho, halda boltanum gegn varnarleik, sóknarleikur gegn rútuvarnarleik."

Spurður út í þættina sagði Mourinho við Sky Sports: „Þú getur gert frábæra kvikmynd án þess að gera lítið úr öðrum."

„Þú þarft ekki að sýna vanvirðingu til þess að búa til flotta kvikmynd."

„Þú getur verið ríkt félag og keypt alla bestu leikmenn í heimi, en þú getur ekki keypt þér fagmennsku og þeir sýndu það þarna augljóslega."

Manchester United endaði í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og byrjaði liðið þessa leiktíð á 2-1 sigri gegn Leicester. Man Utd leikur við Brighton á útivelli á morgun.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner