sun 19. ágúst 2018 23:30
Ívan Guðjón Baldursson
Cristiano Ronaldo rotaði markvörð Chievo
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Stefano Sorrentino var á milli stanganna er Chievo fékk Juventus í heimsókn í fyrstu umferð tímabilsins í ítölsku deildinni.

Cristiano Ronaldo lék allan leikinn sem fremsti maður Juventus en tókst ekki að skora. Chievo komst óvænt 2-1 yfir í síðari hálfleik en Ítalíumeistararnir jöfnuðu og var staðan 2-2 þegar uppbótartíminn var gefinn til kynna.

Juve sótti án afláts undir lok leiksins og náði Mario Mandzukic að skora en markið ekki dæmt gilt því myndbandstæknin sýndi að Ronaldo handlék knöttinn.

Mandzukic kom knettinum í netið eftir mikið klafs í teignum, en hinn 39 ára gamli Sorrentino rotaðist eftir samstuð við Ronaldo í átökunum.

Sorrentino þurfti að eyða nóttinni á spítala vegna áverka eftir rothöggið en hann fékk að fara heim í dag og var alls ekki pirraður eftir áreksturinn, enda augljóslega ekki viljaverk.

„Kærar þakkir fyrir allar batakveðjurnar undanfarna daga. Við erum frábær hópur og vorum næstum búnir að stela stigi í gær á meðan CR7 rotaði mig!" skrifaði Sorrentino á Instagram.

„Ég er búinn að fá kveðjur frá Cristiano Ronaldo. Takk fyrir það goðsögn!"

Federico Bernardeschi gerði sigurmark Juventus á 93. mínútu.






Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner