Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 20. ágúst 2018 23:20
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sérfræðingur BBC lofsamar Gylfa sem er kominn í rétt hlutverk
Mynd: Getty Images
Gylfi í leiknum.
Gylfi í leiknum.
Mynd: Getty Images
Landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson heillaði marga með frammistöðu sinni gegn Southampton í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn.

Everton vann leikinn 2-1 og spilaði Gylfi allan leikinn á miðjunni.

Garth Crooks, séfræðingur hjá BBC, velur Gylfa í lið helgarinnar í enska boltanum og lofsamar hann íslenska landsliðsmanninn.

„Gylfi Sigurðsson náði sér ekki almennilega á strik undir stjórn Ronald Koeman eða Sam Allardyce eftir að hafa verið keyptur á stóra fjárhæð í fyrra. Hins vegar á þessu tímabili, undir stjórn Marco Silva, þá gæti hann gert það," skrifaði Crooks.

„Íslenski landsliðsmaðurinn var framúrskarandi gegn Southampton, að mínu mati var hann besti maður vallarins. Í stöðunni fyrir aftan sóknarmanninn virðist það besta koma frá Gylfa."

Hvers vegna hefur þetta tekið Everton svona langan tíma?
Chris Beesley hjá Liverpool Echo skrifaði pistil um Gylfa í gær. Gylfi var keyptur á metfé til Everton síðastliðið sumar. Þar sem Wayne Rooney var einnig hjá Everton þá var Gylfi oft á kantinum í stað þess að spila á miðjunni fyrir aftan framherja.

Rooney fór í sumar til DC United í Bandaríkjunum og um helgina var Gylfi fremstur á miðjunni hjá Everton. Idrissa Gueye og Morgan Schneiderlin léku fyrir aftan hann á miðjunni og á köntunum voru Richarlison og Theo Walcott. Cenk Tosun var síðan fremstur.

Gylfi er þarna að spila í sinni bestu stöðu og bendir Beesley á það. Nefnir hann að þetta sé „nýtt upphaf" fyrir Gylfa.

Matthew Davies hjá Wales Online skrifaði grein í morgun þar sem hann bendir á grein kollega síns hjá Liverpool Echo og skýtur aðeins á Everton. „Chris kemur með nokkra góða punkta um Íslendinginn. Hann er kominn í treyju númer 10, bæði í myndrænni merkingu og í bókstaflegri merkingu."

„Það hefur tekið 12 mánuði og fjóra knattspyrnustjóra til þess að skilja það að Gylfi klassískur leikstjórnandi sem virkar best þegar hann spilar í holunni."

„Ekki út á kanti, ekki sem framherji - nei. Í hlutverki tíunnar."

„Af hverju hefur þetta tekið svona langan tíma? Spyrjið alla stuðningsmenn Swansea eða alla Íslendinga og þeir munu segja þér það sama um hvar Gylfi spilar best."

Það er óhætt að segja Davies hitti naglann á höfuðið þarna og það er mjög jákvætt að Gylfi sé farinn að spila í holunni.
Athugasemdir
banner
banner