fim 06. september 2018 12:09
Magnús Már Einarsson
Kolbeinn svarar forseta Nantes: Ekkert tilboð frá Panathinaikos
Icelandair
Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kolbeinn Sigþórsson hefur svarað ummælum sem Waldemar Kita, forseti franska félagsins Nantes, lét falla í gær. Kita sagði þá að Kolbeinn hefði hafnað tilboði frá Panathinaikos Grikklandi þar sem hann vildi fá meiri peninga.

Kolbeinn er ekki inni í myndinni hjá þjálfara Nantes og hann var orðaður við Panathinaikos í síðustu viku. Í viðtali við 433.is í dag svarar Kolbeinn ásökunum Kita.

„Staðreyndin er sú að ég fékk aldrei neitt tilboð upp á borðið frá Panathinaikos þótt þeir hafi sýnt mér mikinn áhuga. Þetta stóð því aldrei á fjárhagslegu hliðinni eða vegna minna krafa. Ég vildi bara fá að byrja spila á ný og sýna hvað í mér býr,“ sagði Kolbeinn í samtali við 433.is í dag.

„Þessar yfirlýsingar eiga ekki við nein rök að styðjast. Ég myndi alltaf reyna að skoða mína möguleika út frá minni fótboltalegu stöðu en ekki einungis vegna peninga. Það sem er mikilvægast fyrir mig núna, á þessum stað á mínum ferli sem fótboltamaður, er að komast út á völlinn og fá að spila og skora mörk."

„Ég veit ég get nýst Nantes vel, til þess verð ég að fá tækifæri í liðinu og spila leiki. Það er auðvitað það sem ég vil gera, og vonandi breytist það. Þetta er sögufrægur klúbbur með frábæra stuðningsmenn og ég var kominn á gott ról á miðju sumri og vildi ólmur byrja spila á ný og sanna ég sé enn þá með gæði til að hjálpa liðinu.“


Tvö ár eru síðan Kolbeinn spilaði síðast mótsleik en hann er í íslenska landsliðshópnum sem mætir Sviss og Belgíu í Þjóðadeildinni. Í viðtalinu við Kolbein segir hann að Nantes hafi fengið lánstilboð í sig í sumar en því hafi verið hafnað.

Kolbeinn er þessa stundina með íslenska landsliðinu í æfingabúðum í Austurríki fyrir leikinn gegn Sviss á laugardaginn.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner