lau 15. september 2018 22:02
Gunnar Logi Gylfason
Mjólkurbikarinn: Stjarnan bikarmeistari! (Staðfest)
Stjörnumenn eru bikarmeistarar 2018
Stjörnumenn eru bikarmeistarar 2018
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjarnan 0-0 Breiðablik
4-1 eftir vítaspyrnukeppni

Vítaspyrnukeppnin:
0-1 Thomas Mikkelsen skorar
1-1 Hilmar Árni Halldórsson skorar
2-1 Baldur Sigurðsson skorar
2-1 Oliver Sigurjónsson skýtur yfir
2-1 Haraldur Björnsson ver frá Arnóri Gauta Ragnarssyni
3-1 Guðmundur Steinn Hafsteinsson skorar
4-1 Eyjólfur Héðinsson skorar

Fyrri hálfleikurinn var tíðindalítill en vel heyrðist í Silfurskeiðinni strax í byrjun.

Fyrri hálfleikurinn var markalaus og smá hrollur í liðum kannski.

Það lifnaði aðeins yfir liðunum í seinni hálfleik.

Þegar líða tók á leikinn fór dauðafærunum að fjölga og varði Haraldur Björnsson, í marki Stjörnunnar, gríðarlega vel frá Mikkelsen þegar rúmur stundarfjórðungur var eftir af venjulegum leiktíma.

Liðin héldu áfram að sækja til skiptis en markverðirnir voru frábærir í leiknum og ætluðu sér ekki að tapa leiknum.

Þegar fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma datt boltinn fyrir Baldur Sigurðsson við markteig Blika. Skaut hann á markið og Gunnleifur Gunnleifsson eins og köttur í markinu og varði stórkostlega.

Á 90. mínútu áttu Blikar sendingu inn í teiginn þar sem Brynjar Gauti renndi sér í boltann áður en sóknarmaður Blikanna náði til hans. Boltinn var á leiðinni inn en Haraldur Björnsson náði, á einhvern ótrúlegan hátt, að teygja sig í boltann og blaka honum yfir.

Stjörnumenn fengu aukaspyrnu á síðustu mínútu uppbótartímans, þeirri 94. mínútu og skoraði Guðmundur Steinn með skalla. Því miður fyrir Stjörnuna var búið að flagga rangstöðu og því framlengt.

Á 6. mínútu framlengingar fengu Stjörnumenn aukaspyrnu á hættulegum stað við hlið vítateigsins. Hilmar Árni skaut á markið en Gunnleifur varði í horn.

Í uppbótartíma fyrri hálfleiks framlengingar féll Baldur Sigurðsson í teig Breiðabliks. Góður dómari leiksins, Þóroddur Hjaltalín, flautaði og gaf Baldri gult spjald fyrir leikaraskap sem var hárrétt ákvörðun.

Í upphafi síðari hálfleiks framlengingar féll Guðmundur Steinn í vítateig Blika eftir að hafa verið næstum því kominn í gegn. Ekkert var dæmt en Guðmundur Steinn hefði getað tekið skotið fyrir það.

Á 115. mínútu átti Haraldur Björnsson enn eina vörsluna þegar Arnór Gauti Ragnarsson átti skot, umkringdur Stjörnumönnum, eftir góðan sprett.

Á 120. mínútu fékk Baldur boltann inn í teig og tók hann á bringuna og tók skotið á lofti rétt fyrir utan markteiginn en negldi boltanum yfir.

Á síðustu sekúndunum varði Gunnleifur skalla frá Ævari Inga og boltinn barst til Sölva Snæs Guðbjargarsonar sem skaut í stöngina og í kjölfarið var flautað til loka leiks og vítaspyrnukeppnin tók við.

Þar voru Stjörnumenn sterkari og unnu 4-1 en ABBA kerfið var notað.

Þetta er fyrsti bikarmeistaratitill í sögu félagsins.

Til hamingju Stjörnumenn!
Athugasemdir
banner
banner
banner