Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 26. september 2018 12:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Jökull: Man bara eftir að hafa vaknað í sjúkrabílnum
Fékk annað höfuðhöggið á stuttum tíma - Líður sæmilega núna
Jökull er að gera góða hluti með Hungerford.
Jökull er að gera góða hluti með Hungerford.
Mynd: Reading
Þessi mynd tengist fréttinni ekki neitt.
Þessi mynd tengist fréttinni ekki neitt.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jökull Andrésson, markvörður Hungerford á Englandi, fékk annað höfuðhögg sitt á stuttum tíma er hann var að spila í forkeppni FA-bikarsins um síðastliðna helgi.

Hungerford og Wantage Town áttust við en er staðan var 0-0 á 73. mínútu lenti Jökull í samstuði og þurfti að bera hann af velli. Leikurinn var í kjölfarið flautaður af. Liðin mættust aftur í gær og var niðurstaðan 1-1 jafntefli. Það þarf því að útkljá úrslitin í þriðju viðureigninni.

Fótbolti.net heyrði í Jökli sem er aðeins 17 og er að gera það gott á Englandi.

„Það sem gerist er það að ég er að hlaupa út úr markinu til að henda mér á boltann. Það var gaur í hinu liðinu sem var einn á móti marki og auðvitað var ég að reyna að koma í veg fyrir að hann myndi skora. Ég náði að verja boltann en ég skildi höfuðið aðeins of mikið eftir, hnéið hans fer beint í kjálkann minn," segir Jökull sem man þó eftir litlu frá atvikinu.

„Ég var rotaður í svona sjö til 10 mínútur. Ég man ekki eftir neinu nema bara að vakna í sjúkrabílnum."

„Ég var að tala við læknanna og þeir sögðu við mig að það væri of snemmt að segja til um það hversu lengi ég verð frá en það verða allavega þrjár vikur. Það er regla hérna í Englandi eftir svona höfuðhögg."

„Þegar ég vaknaði þá hafði ég enga hugmynd um hvað væri í gangi. Sársaukinn var ekkert rosalega mikill þannig séð en mér var illt í hausnum. Mér líður alveg sæmilega núna en það er búið að sauma vörina og laga tennurnar. Ég má bara borða mjúkan mat í fjórar vikur, ég þarf að passa mikið upp á það hvernig ég borða. Annars er ég bara í skýjunum með allt."

Jökull er á láni frá Reading en bróðir hans er Axel Óskar Andrésson, sem leikur einmitt einnig með Reading en er á láni hjá Viking í Noregi.

„Það gengur rosalega vel. Ég er að spila í deild þar sem markverðir eru vanlega 19 ára eða tvítugir að minnsta kosti. Ég er mjög ungur miðað við aðra markverði í þessari deild. Ég er að æfa með Reading og þetta gæti eiginlega ekki verið betra."

„Ég er með samning hjá Hungerford þangað til í janúar en ef það gengur vel þá eru góðar líkur á því að samningurinn verði framlengdur," sagði Jökull Andrésson en Hungerford leikur í sjöttu efstu deild á Englandi.
Athugasemdir
banner
banner
banner