Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 12. október 2018 12:04
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Akureyri
Trninic yfirgefur KA - Stefnir á áframhaldandi veru á Íslandi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Serbneski miðjumaðurinn Aleksandar Trninic hefur ákveðið að yfirgefa KA og róa á önnur mið.

Trninic, sem er 31 árs að aldri, kom fyrst hingað til lands fyrir tímabilið 2016. Hann hjálpaði KA að komast upp úr Inkasso-deildinni og hefur síðastliðin tvö ár spilað stórt hlutverk hjá liðinu í Pepsi-deildinni. Hann kom við sögu í 19 leikjum í Pepsi-deildinni í sumar, byrjaði 18 þeirra.

Hann stefnir á það að spila áfram á Íslandi og gæti reynt fyrir sér hjá liði á höfuðborgarsvæðinu ef það er til boða.

„Eftir þrjú ár og frábæran tíma hjá KA þá finnst mér vera kominn tími á að skipta um félag. Ég vil fá nýja áskorun," sagði Trninic við Fótbolta.net. í dag.

„Ég talaði við stjórn KA en við náðum ekki samkomulagi um áframhaldandi samstarf. Ég er líka að hugsa um fjölskyldu mína, ég væri til í að prófa eitthvað í Reykjavík."

Aðspurður segist Trninic ekki vera í viðræðum við neitt félag enn sem komið er.

Hann segir að KA verði ætíð í hjarta sínu.

„Það var ánægjulegt að spila fyrir KA og stuðningsmenn félagsins. Ég vil þakka stuðningsmönnunum sérstaklega fyrir stuðninginn á þessum þremur árum. Ég gaf alltaf 100% fyrir þá. Stuðningsmennirnir eru eitt það besta við félagið. Félagið og stuðningsmennirnir verða alltaf í mínu hjarta."

Af hverju Ísland?
En hvað er það við Ísland sem heillar svona? Af hverju vill Trninic halda áfram að spila hér á landi?

„Fólkið er mjög indælt og fótboltinn er skemmtilegur. Umhverfið er mjög rólegt og það er gott fyrir börnin. Landið er svo auðvitað mjög fallegt," sagði Trninic að lokum.

Leikmannamál KA
Þjálfarabreytingar urðu hjá KA á dögunum. Óli Stefán Flóventsson tók við liðinu. Smelltu hér til að lesa ítarlegt viðtal við Óla Stefán.

Óli Stefán sagði í viðtalinu að leikmannamál væru í vinnslu. „Það þarf að stíga varlega til jarðar með það en við erum að skoða leikmenn sem munu 100% passa inn í þá vinnu sem við erum að fara af stað með."

Ásamt Trninic hafa tveir landar hans, þeir Milan Joksimovic og Vladimir Tufegdzic, ákveðið að yfirgefa KA. Guðmann Þórisson er líka á förum frá Akureyrarfélaginu.

KA hafnaði í sjöunda sæti Pepsi-deildarinnar í sumar.
Athugasemdir
banner
banner