Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   þri 16. október 2018 19:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Barcelona ætlar að fjarlæga sig frá Ronaldinho
Ronaldinho.
Ronaldinho.
Mynd: Getty Images
Barcelona ætlar að minnka við hlutverk Ronaldinho og Rivaldo hjá félaginu eftir að tvímenningarnir tilkynntu stuðning sinn við brasilíska forsetaframbjóðandann Jair Bolsonaro.

Bolsonaro þykir mjög umdeildur en virðist njóta mikilla vinsælda í heimalandi sínu, Brasilíu.

Hann var háttsettur í brasilíska hernum en stefnir nú að því að gerast forseti landsins. Hann hefur tjáð sig um ýmis málefni með umdeildum hætti. Bolsonaro hefur til að mynda sýnt kvenhatur og fordóma gagnvart samkynhneigðum. Til marks um hve umdeildur hann er þá var hann stunginn á kosningafundi á dögunum.

Bolsonaro, sem hefur verið kallaður „brasilíski Donald Trump", tókst að jafna sig eftir árásina og vann hann fyrstu umferð kosninganna í Brasilíu. Það þarf að kjósa aftur, en Bolsonaro fékk 46% atkvæða í fyrri umferð kosninganna.

Ronaldinho og Rivaldo eru stuðningsmenn forsetaframbjóðandans umdeilda en samkvæmt vefsíðunni Sport er Barcelona ekki sátt með þetta, félagið vill ekki láta bendla sig við Bolsonaro.

Ronaldinho er sendiherra Barcelona og kemur fram á ýmsum viðburðum í tengslum við félagið. Rivaldo er í svipuðu hlutverki, en núna eftir að þeir tilkynntu stuðning sinn við Bolsonaro þá ætlar Barcelona að reyna fjarlæga sig frá Ronaldinho og Rivaldo að einhverju leyti. Báðir spiluðu þeir með félaginu á sínum tíma.
Athugasemdir
banner
banner