lau 20. október 2018 16:23
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Rakel enn og aftur á skotskónum - Sjötti leikurinn í röð
Rakel Hönnudóttir.
Rakel Hönnudóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnór Ingvi í landsleik.
Arnór Ingvi í landsleik.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Landsliðskonan Rakel Hönnudóttir hefur verið sjóðandi heit með sænska félaginu Limhamn Bunkeflo í sænsku úrvalsdeildinni upp á síðkastið.

Rakel skoraði þriðja og síðasta mark Bunkeflo í þægilegum 3-0 sigri á botnliði Kalmar í dag.

Þetta er sjötti leikurinn í röð sem Rakel skorar í en hún á stóran þátt í því að Bunkeflo er komið upp úr fallsæti þegar liðið á einn leik eftir. Bunkeflo gæti dottið aftur niður í fallsæti á morgun ef Vittsjö vinnur leik sinn gegn Eskilstuna.

Anna Björk Kristjánsdóttir lék ekki með með Limhamn Bunkeflo í dag.

Hitt Íslendingaliðið sem spilaði í úrvalsdeild kvenna í Svíþjóð í dag var Kristianstad. Það gekk ekki nægilega vel hjá Kristianstad, liðið fékk skell gegn Göteborg á heimavelli, 1-5.

Sif Atladóttir spilaði í vörninni hjá Kristianstad en þjálfari liðsins er Elísabet Gunnarsdóttir.

Kristianstad er nú þegar búið að tryggja sér fjórða sæti. Liðið á enn möguleika á þriðja sætinu, þó það sé ólíklegt.

Arnór Ingvi og Alfons í eldlínunni
Arnór Ingvi Traustason spilaði allan leikinn þegar Malmö hafði betur gegn Hammarby í úrvalsdeild karla.

Leikurinn endaði með 2-1 sigri Malmö eftir að Hammarby hafði haft 1-0 forystu í hálfleik. Malmö er í fjórða sæti með 48 stig en Hammarby hefur 50 stig í öðru sæti.

Bakvörðurinn Alfons Sampsted spilaði þá með B-deildarliðinu Landskrona í 3-1 tapi gegn GAIS. Landskrona er í vondum málum, í fallsæti. Liðið er fimm stigum frá umspilssæti þegar það á eftir að spila þrjá leiki í deildinni.

Sjá einnig:
Alfons: Kem klárlega til baka sem betri leikmaður

Svava tekin af velli í hálfleik
Svava Rós Guðmundsdóttir hefur verið frábær með norska félaginu Roa á tímabilinu.

Hún náði þó ekki að hjálpa liði sínu mikið í 2-0 tapi á útivelli gegn Arna-Bjørnar í dag. Hún var tekin af velli í hálfleik.

Roa er í sjöunda sæti norsku úrvaldeildarinnar þegar liðið á tvo leiki eftir. Sigríður Lára Garðarsdóttir og stöllur hennar í Lilleström eru á toppnum, búnar að tryggja sér titilinn.
Athugasemdir
banner
banner
banner