Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mán 22. október 2018 14:24
Elvar Geir Magnússon
Jón Þór: Hef fylgst með liðinu sem stuðningsmaður
Jón Þór Hauksson, nýr kvennalandsliðsþjálfari.
Jón Þór Hauksson, nýr kvennalandsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Þór Hauksson var í dag kynntur sem nýr þjálfari kvennalandsliðsins en hann sat fyrir svörum á fréttamannafundi í dag.

„Ég er mjög stoltur af því að hafa fengið þetta tækifæri. Ég hlakka til að vinna með þessu frábæra liði og frábæru leikmönnum," segir Jón Þór.

„Ég hef fylgst vel með kvennalandsliðinu undanfarin ár, sem aðdáandi og stuðningsmaður."

Ian Jeffs verður aðstoðarmaður Jóns.

„Ég er ánægður með að fá Ian Jeffs með mér, hann hefur víðtæka reynslu. Hann er með reynslu, bæði í karla- og kvennabolta. Ég lagði mikla áherslu á að fá hann enda er hann með meiri reynslu úr kvennaboltanum en ég."

„Við viljum halda góðri umgjörð í kringum kvennalandsliðið," segir Jón Þór.

„Ég hef komið að uppbyggingarstarfi í bæði karla- og kvennafótbolta. Það eru mismunandi aðstæður þegar þú tekur við nýju liði og tekst á við nýtt verkefni. Ég er fyrst og fremst knattspyrnuþjálfari og hef ekki skilgreint mig sem karla- eða kvennaþjálfara. Fótbolti er fótbolti."

„Mín markmið eru að hjálpa leikmönnum að ná því allra besta fram og þar með gera liðið betra. Við erum komnir á þann stað að við viljum berjast um að komast í lokakeppnir á stórmótum. Það er að sjálfsögðu okkar markmið."

„Ég hef enn ekki talað við neina leikmenn liðsins. Það er næst á dagskrá."

Jón Þór var spurður út í kynslóðaskipti hjá liðinu.

„Í eðli sínu er það þannig í fótboltanum að við verðum að fylgja eftir þeirri þróun. Yngri kvennalandsliðin hafa staðið sig vel svo framtíðin er björt. Við veljum okkar bestu leikmenn í A-landsliðið, óháð aldri. Við erum ekki mættir hingað til að skófla einhverjum út eða gera róttækar breytingar," segir Jón Þór.

Verða breytingar á leikaðferð eða leikstíl liðsins?

„Við höfum okkar skoðanir á því. Við í teyminu eigum eftir að funda og ræða þau mál betur. Við munum finna út hvað hentar liðinu best í því. Mikilvægast er samt að halda í þau gildi og þær stefnur sem liðið er þekkt fyrir."

„Ég átti frábæran tíma í Stjörnunni og ég lít með stolti og þökkum á þann tíma sem ég átti þar."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner