Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 09. nóvember 2018 11:31
Elvar Geir Magnússon
Halli Björns: Steingleymdi póstinum frá Fjalari
Haraldur var maður leiksins í bikarúrslitaleiknum í fyrra.
Haraldur var maður leiksins í bikarúrslitaleiknum í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Haraldur Björnsson, markvörður bikarmeistara Stjörnunnar, er í viðtali í hlaðvarpsþætti Garðabæjarfélagsins Inn með boltann.

Þar rifjar hann meðal annars upp sigur Stjörnunnar gegn Breiðabliki í bikarúrslitaleiknum í sumar. Haraldur segir að undirbúningur sinn fyrir leikinn hafi ekki verið óvenjulegur.

„Ég fór bara í skólann og horfði á fyrirlestur í þrjá tíma, borðaði og fór á völlinn. Ég hugsaði ekki öðruvísi um þennan leik en einhvern annan," segir Haraldur sem opinberar þó að hafa gleymt að búa sig undir vítaspyrnukeppni.

Fjalar Þorgeirsson, markvarðaþjálfari Stjörnunnar, sendi Haraldi upptöku af Blikum þegar þeir fóru í vítakeppni gegn Víkingi Ólafsvík í undanúrslitum.

„Fjalar var búinn að vinna mikla vinnu og sendi mér vítaspyrnukeppnina úr Breiðablik - Víkingur Ólafsvík, en ég gleymdi að horfa á hana! Ég var upptekinn í vinnunni og steingleymdi þessum pósti."

„Þegar við erum svo að fara í vítaspyrnukeppnina bið ég Fjalar um að skrifa á brúsann hvar hann taldi að menn myndu skjóta. Það stóð á flöskunni hvar Arnór (Gauti Ragnarsson) myndi líklega skjóta og því fór ég í það horn. Ég varði boltann upp í loftið en sem betur fer fór hann yfir markið. Þá þurftum við bara eitt víti til að vinna þetta," segir Haraldur.

Hann var valinn maður leiksins í bikarúrslitaleiknum en þetta var hans fyrsti alvöru titill á ferlinum.

Getum unnið tvöfalt
Haraldur er 29 ára en hann telur að hann eigi alla möguleika á að bæta sig enn frekar.

„Ég tel að ég sé ekki kominn á toppinn. Ef maður heldur áfram að bæta sig tel ég að það séu nokkur ár í toppinn," segir Haraldur sem hefur fulla trú á því að Stjarnan vinni til enn frekari afreka.

„Við getum unnið tvöfalt, það er engin spurning. Það er stöðugleiki í félaginu. Við getum unnið tvöfalt. Við lærðum heilmikið á þessu ári og því síðasta. Ef hópurinn verður áfram samstilltur getum við tekið stærri titil á næsta ári," segir Haraldur.

Hér að neðan má hlusta á viðtalið við Harald.



Sjá einnig:
Halli Björns rifjar upp þegar Atli Eðvalds sendi hann til augnlæknis
Athugasemdir
banner
banner
banner