banner
   mið 14. nóvember 2018 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Jordi Alba neitar að hafa rifist við Luis Enrique
Mynd: Getty Images
Jordi Alba var ekki valinn í fyrstu tvo landsliðshópa Luis Enrique en var valinn í hópinn fyrir leikina gegn Króatíu og Bosníu Hersegóvínu. Leikurinn gegn Króötum er mikilvægur í Þjóðadeildinni en leikurinn gegn Bosníu er vináttulandsleikur.

Talið var að Alba og Luis Enrique væru ósáttir eftir tíma þeirra saman hjá Barcelona en Alba þvertekur fyrir það og segist vera ánægður með að hafa verið valinn aftur í landsliðið.

„Við Enrique erum sáttir. Hann hjálpaði mér mikið hjá Barcelona og ég þekki engan sem myndi tala illa um þennan mann. Ég þekki hann vel og hef aldrei átt í rifrildum við hann," sagði Alba.

„Hann hefur unnið mikið af titlum á frábærum ferli og ég ber mikla virðingu fyrir honum."

Alba er 29 ára gamall og hefur verið lykilmaður í sterku liði Barcelona undanfarin ár. Hann á 66 landsleiki að baki og vann EM 2012 með landsliðinu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner