banner
   lau 17. nóvember 2018 18:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Villas-Boas segir að stjórn Tottenham hafi „eyðilagt allt"
Andre Villas-Boas.
Andre Villas-Boas.
Mynd: Getty Images
Portúgalinn Andre Villas-Boas segist hafa hafnað Paris Saint-Germain á meðan hann var stjóri Tottenham. Hann segist í dag sjá eftir þeirri ákvörðun sinni.

Villas-Boas var í rúmt ár hjá Tottenham. Undir hans stjórn endaði liðið í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar árið 2013. Gareth Bale var frábær á því tímabili og var í kjölfarið keyptur til Real Madrid.

Tottenham lenti í vandræðum eftir að Bale fór og var Villas-Boas rekinn tímabilið 2013/14.

„Fyrsta tímabilð var stórkostlegt. Við vorum ekki með mikla breidd, en andinn í hópnum var frábær og sömuleiðis viljinn til að afreka eitthvað," sagði Villas-Boas við A Bola í Portúgal.

„Ég fékk tilboð frá Paris Saint-Germain en ég sagði nei af virðingu við Tottenham. Kannski voru það mistök."

Villas-Boas var ósáttur við stjórn Tottenham eftir að Bale var seldur. Tottenham keypti sjö leikmenn í staðinn: Christian Eriksen, Erik Lamela, Nacer Chadli, Vlad Chiriches, Paulinho, Roberto Soldado og Etienne Capoue.

„Ég setti fram lista með leikmönnum sem ég vildi selja og kaupa. Stjórnin hlustaði ekki og eyðilagði fljótlega allt það sem við höfðum skapað."

Síðan hann var rekinn frá Tottenham hefur Villas-Boas stýrt Zenit í Rússlandi og Shanghai SIPG í Kína. Hann hætti hjá Shanghai SIPG í nóvember á síðasta ári og ákvað að snúa sér að rallý. Villas-Boas tók þátt í Dakar rallýinu en þurfti að hætta keppni þar vegna meiðsla. Hann vonast til að snúa aftur í þjálfun fljótlega.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner