Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 18. nóvember 2018 11:57
Elvar Geir Magnússon
Eupen
Hamren heldur sama kerfi - Kári verður fyrirliði
Icelandair
Frá æfingu Íslands í Eupen í dag.
Frá æfingu Íslands í Eupen í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kári Árnason verður með fyrirliðabandið annað kvöld þegar Ísland og Katar eigast við í vináttulandsleik í Belgíu. Þetta kom fram á fréttamannsfundi á keppnisvellinum í dag.

Þá staðfesti Erik Hamren að hann ætlar að halda áfram með sama leikkerfi og var notað gegn Belgíu og spilað verður áfram með þrjá hafsenta.

„Já það er ekkert leyndarmál. Við viljum halda áfram að æfa okkur í þessu leikkerfi. Við erum að fara að mæta öðruvísi andstæðingi og viljum sjá kerfið gegn þeim," sagði Hamren á fundinum í dag.

Hörður byrjar á bekknum
Hörður Björgvin Magnússon var ekki með á æfingu í gær en æfði á keppnisvellinum í dag.

„Hörður er fínn en við viljum ekki taka neina áhættu með hann og hann byrjar á bekknum. Hann æfði í dag en verður ekki í byrjunarliðinu," sagði Hamren.

Það verða einhverjar breytingar á byrjunarliðinu. Ljóst er að Hörður byrjar ekki og þá mun Aron Einar Gunnarsson fyrirliði ekki spila leikinn.

„Það verða einhverjar breytingar. Við ákváðum fyrir verkefnið að Aron myndi ekki spila þennan leik. Svo vil ég skoða fleiri leikmenn, það eru margir leikmenn sem eru mjög jafnir að getu. Það verða einhver ný andlit í leiknum á morgun."

Í gærmorgun var greint frá því að Alfreð Finnbogason væri farinn til Þýskalands en hann fann fyrir meiðslum í upphitun fyrir leikinn gegn Belgíu.

Leikur Katar og Íslands á morgun verður 18:30 að íslenskum tíma.
Athugasemdir
banner
banner