Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   sun 18. nóvember 2018 14:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Man Utd getur ekki fundið betri stjóra en Mourinho"
Mynd: Getty Images
Jose Mourinho hefur fengið á sig mikla gagnrýni á meðan hann hefur verið í stjórastól Manchester United.

Það er aðallega leikstíll hans sem hefur verið gagnrýndur en Mourinho þykir heldur varnarsinnaður.

Sögusagnir hafa verið um að Mourinho sé valtur í sessi og vilja fjölmargir stuðningsmenn Manchester United losna við hann. Man Utd ætti hins vegar að gera allt annað en að losa sig við Mourinho að mati Benni McCarthy, sem spilaði í ensku úrvalsdeildinni með Blackburn og West Ham á árum áður.

McCarthy spilaði líka með Porto þegar Mourinho stýrði liðinu til sigurs í Meistaradeildinni.

„Hann mun 100% rísa upp aftur," sagði McCarthy í viðtali við Daily Star. „Manchester United á ekki að losa sig við hann. Hver myndi þá taka við? Það eru ekki til betri stjórar en Mourinho."

„Hann hefur persónuleikann og karakterinn til að takast á við þetta. Hann er rétti stjórinn fyrir Manchester United."

McCarthy segir að Mourinho hafi haft gífurleg áhrif á sig. „Hann var þannig sem ég vildi verða."

„Hann var ótrúlega fær í samskiptum við leikmenn sína og það er varla hægt að lýsa því hversu góður hann var sem taktískur þjálfari," sagði McCarthy.

„Ég verð honum alltaf þakklátur."

Manchester United er í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir erfiða byrjun í ensku úrvalsdeildinni.
Athugasemdir
banner
banner